136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu frá meiri hluta viðskiptanefndar sem gengið var frá í gærkvöldi og breytir að mínu mati, og okkar sjálfstæðismanna, verulega hlutverki peningastefnunefndar sem er eitt af lykilatriðunum í þessu frumvarpi. Við höfum áhyggjur af því að þessi breytingartillaga sé fullkomlega vanhugsuð, okkur var neitað um að fá sérfræðileg álit á efni hennar. Enginn gerir sér grein fyrir því hvaða áhrif hún kemur til með að hafa og við höfum áhyggjur af því að hún geti verið stórskaðleg.

Þess vegna greiðum við sjálfstæðismenn atkvæði gegn þessari breytingartillögu sem hefði þurft miklu betri meðferð í nefndinni til að unnt væri að átta sig á henni og unnt væri að vinna málið til enda með skynsamlegum hætti.