136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram hér í dag vil ég segja að það sé algjör misskilningur að þetta ákvæði kollvarpi frumvarpinu. Frumvarpið gengur út á það að ákvörðun peningastefnunefndar skuli grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika. Það er einmitt verið að veita peningastefnunefndinni tæki til að bregðast við ef hún sér blikur á lofti sem snerta allt fjármálakerfið.

Ég held að það hefði verið til bóta ef svona ákvæði hefði verið í lögum hér áður fyrr og að þeir sem sáu að blikur voru á lofti í aðdraganda bankahrunsins hefðu þá komið fram og skýrt frá þeim hættum þannig að hægt hefði verið að bregðast við fyrr og kannski minnka þann skaða (Forseti hringir.) sem blasir við íslensku þjóðlífi í augnablikinu.