136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:33]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um litla breytingartillögu sem kveður á um að í tilvikum þar sem fjármálakerfinu er hætta búin skuli peningastefnunefndin meta það sérstaklega, enda er það hlutverk Seðlabanka að fylgjast með fjármálastöðugleika og fjármálakerfinu og ef nefndin metur það svo skal hún tilkynna um það opinberlega ef tilefni er til.

Ég held, virðulegi forseti, að það hefði verið afar gott að ákvæði af þessum toga hefði verið til staðar í þeim hremmingum sem við höfum gengið í gegnum. Þá þyrftum við ekki nú að ræða það hvort fólk hafi talað saman, hvað þar fór fram og hverjir töluðu við hvern. Þá hefði þetta verið skýrt og einfalt og hugsanlega hefðum við komist hjá miklum hremmingum sem við erum nú að takast á við, eins og t.d. Icesave.