136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Á hátíðis- og tyllidögum segja stjórnmálamenn að valdið komi frá fólkinu, frá almenningi og er eðlilegt að það endurspeglist í störfum þingsins. Við erum greinilega sammála, ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, um að það eigi að endurspeglast í kjörfylgi flokkanna á Alþingi hvaða formennsku og varaformennsku í nefndum þeir eigi að gegna.

En af því við hv. þingmaður erum komnir í umræðu um þetta almennt bendi ég á að eftir að hin geysistóra ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók til starfa, kusu þeir flokkar saman í nefndir. Við skulum taka sem dæmi mikilvæga nefnd sem er EFTA-nefndin sem á að fylgjast með samstarfi okkar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í þá nefnd fengu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fjóra fulltrúa af fimm. Þá var einn eftir til skiptanna sem ég held að hafi komið frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi verið í þeirri nefnd og sé enn í þeirri nefnd.

En tveir flokkar voru þar af leiðandi sjálfvirkt útilokaðir frá því að geta starfað í þeirri nefnd, eins mikilvæg og hún er. Ég veit að hv. þingmaður veit það. Það hljómar mjög ankannalega ef tveir stjórnmálaflokkar, í þessu tilviki Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, geta ekki fengið aðkomu að nefnd, áheyrn eða eitthvað slíkt. Ég held því að í pælingum okkar um fastanefndir þingsins þurfum við líka að skoða alþjóðasamstarfið og hvernig við getum á sem lýðræðislegastan hátt hleypt öllum stjórnmálaflokkum að því mikilvæga starfi. Það hefur sýnt sig í því hruni sem átt hefur sér stað á Íslandi að menn þurfa að standa vaktina og fylgjast með. Að sjálfsögðu eiga allir stjórnmálaflokkar (Forseti hringir.) að fá að vera í því starfi. Ég spyr því hv. þingmann um hans sjónarmið í (Forseti hringir.) þessu.