136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um þetta atriði. Það er ekkert eðlilegt við að ríkisstjórnarmeirihluti eins og síðast var hér, sem hafði tvo þriðju þingmanna á bak við sig, hefði 80% hlutdeild í einni nefnd eins og alþjóðanefndinni sem hv. þingmaður nefndi.

Ég talaði sjálfur fyrir því þegar ég ræddi um skipan yfirkjörstjórna um land allt, sem allar eru fimm manna, að fráfarandi síðasta ríkisstjórn tók fjögur sæti af fimm í öllum nefndunum þó að hún ætti að sjálfsögðu ekki fylgi fyrir því. Það var vegna þess að hlutfallsreglan var notuð. Ég er því þeirrar skoðunar að það eigi taka nefndarsætin í fastanefndum og alþjóðanefndum og skipta þeim eftir fylgi þannig að flokkur sem hefur 15% fylgi fái 15% hlutdeild í heildarsætafjölda í fastanefndum. Hið sama á við um alþjóðanefndirnar. Síðan verða flokkarnir að sjálfsögðu að koma sér saman um það hvernig það skiptist nákvæmlega.

Þetta getur leitt til þess að ríkisstjórn sem hefur t.d. 33 þingmenn á bak við sig hefur ekki sjálfkrafa meiri hluta í öllum nefndum en það er líka allt í lagi. Þannig á það alveg að geta unnist í lýðræðissamfélagi þar sem þingið á að vera sjálfstætt.

Ég minni á að í þjóðþingunum í kringum okkur, t.d. í Noregi þar sem ég þekki til, er nefndarformennsku skipt á alla flokka eftir stærð og eftir fylgi. En flokkarnir tilnefna líka talsmenn í einstöku nefndum þar sem þeir hafa ekki formann. Flokkarnir hafa engu að síður talsmann í hverjum málaflokki sem kemur fram fyrir hönd viðkomandi flokks þó að flokkurinn gegni ekki formennsku þar. Það getur verið mikilvægt fyrir stjórnarflokk sem ekki á formann í tiltekinni nefnd að hann hafi þó alla vega formlega tilnefndan talsmann. Það er fyrirkomulag (Forseti hringir.) sem við gætum hiklaust skoðað.