136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér afskaplega mikilvægt mál. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir að vinna enn einu sinni að hag Alþingis vegna þess að þær breytingar sem gerðar voru fyrir nokkru á því að takmarka ræðutíma t.d. og fleira, sem gert hefur vinnuna á þingi miklu skilvirkari, eru honum að miklu leyti að þakka. Ég vil að það komi skýrlega fram.

Undanfarið hefur verið mikil gerjun í þjóðfélaginu. Við urðum fyrir gífurlegu áfalli, íslensk þjóð. Þegar vel gengur er mjög erfitt að breyta hlutum vegna þess að það gengur allt þokkalega. Ef breyta á einhverju kemur það niður á einhverjum. Þá rís hinn sami upp á afturlappirnar og talar við þingmanninn sinn og ráðherrann og ekkert verður af breytingunum. (Gripið fram í: Nú?)

Þá er skortur á katastrófu, eins og sumir segja. Við höfum orðið fyrir áfalli á Íslandi. Það er ekkert gamanmál. Það er virkilega alvarleg staða en það gefur okkur tækifæri til að gera breytingar. Menn eru tilbúnir í breytingar þegar katastrófa er í samfélaginu. Ákallið í mótmælunum úti á Austurvelli, ákallið frá þjóðinni, eins og ég skil það — ég þekki náttúrlega ekki alla þjóðina, ég er ekki einn af þeim — en mín tilfinning er sú að mikil krafa sé um að lýðræðið og gagnsæið sé aukið. Það er krafa um að Alþingi sé styrkt.

Það er ekki spurning, og það geta allir þingmenn borið upp í flokkum sínum, hver og einn einasti, að flokksræði hefur verið mjög sterkt á Íslandi og það hefur verið mjög sterkt ráðherraræði. Það eimir eftir af því enn þá. Ég minntist á að á morgun skipar einn ráðherra allt Seðlabankaliðið, alla stjórnina eins og hún leggur sig. Þetta verður sem sagt Jóhönnubankastjórn (Gripið fram í.) þannig að það er sterkt ráðherraræði.

En ég held að nú sé krafa um að Alþingi sé styrkt og við verðum að bregðast við því. Þetta frumvarp er hluti af því. Þegar þingmenn eru í færri nefndum hafa þeir meira gildi í hverri nefnd fyrir utan að það gefur ákveðið merki um að breyta eigi ráðuneytunum líka þó að það sé ekki endilega samsvörun á þar á milli. Ég tel að það sé mjög brýnt að sameina iðnaðarráðuneyti og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og hugsanlega fleiri verkefni og setja allt inn í nýtt atvinnumálaráðuneyti. Ég held að það sé mjög brýnt. Jafnvel má þá kljúfa önnur ráðuneyti upp sem eru allt of stór. Frumvarpið finnst mér vera afrakstur ákveðinnar lýðræðisgerjunar í þjóðfélaginu.

En ég vil gera miklu meiri og miklu alvarlegri breytingar. Mesta breytingin sem ég hef talað fyrir, fyrir mörgum árum, er sú að ekkert frumvarp verði samþykkt á Alþingi sem alþingismenn hafa ekki samið sjálfir. Nú er þessu akkúrat öfugt farið. Það er leitun að frumvörpum sem alþingismenn hafa samið sem Alþingi samþykkir síðan sem lög.

Hvaða máli skiptir það? Jú, sá sem semur texta í fyrsta skipti þarf ekki að svara fyrir að textinn sé svona eða hinsegin. Hann setur endanlegan ramma. Allir sem koma að málinu seinna meir þurfa að rökstyðja breytingarnar. Þeir þurfa að segja: Þetta er galli, við þurfum að breyta þessu. Segjum t.d. að þetta sé frumvarp um samkeppnismál. Hverjir skyldu nú yfirleitt semja þau í dag? Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins vegna þess að þeir vita jú mest um málið. Það eru sérfræðingarnir. Síðan fer það í ráðuneyti viðkomandi ráðherra, í þessu tilfelli viðskiptaráðherra. Hann og starfsmenn þurfa að leggja blessun sína yfir málið og þeir þurfa að rökstyðja breytingarnar sem starfsmenn Samkeppniseftirlitsins þurftu ekki að gera. Síðan fer málið í ríkisstjórn. Hún þarf að rökstyðja það ef hún gerir breytingar á því. Síðan fer það til stjórnarflokkanna. Þeir þurfa líka að rökstyðja breytingar. Svo fer málið í nefnd á Alþingi í umræðu o.s.frv. Allir þurfa að rökstyðja breytingarnar nema sem sá setti textann upp upphaflega. Hann þarf ekki að rökstyðja eitt eða neitt. Hann er oft að vinna í framkvæmd laganna. Hann er að vinna með borgurunum og smíðar vopn í hendurnar á sjálfum sér.

Ég skora á hv. þingmenn að lesa t.d. 109. gr. skattalaga. Eflaust er hún samin af einhverjum skattheimtumanninum. Hún er bönnuð börnum sú grein, hún er svo skelfileg. Það er svo mikið af álögum, það er svo mikið um fangelsisvistun og ég veit ekki hvað, ef menn fara ekki að vilja embættismannanna.

Ég held að þingmenn mundu aldrei setja svona ákvæði í lög ef þeir semdu frumvarp sjálfir. Það held ég að yrði mjög mikil breyting. Og það skemmtilega er að það þarf alls engu að breyta, hvorki lögum né stjórnarskrá eða neinu. Það eina sem þarf að gera er að Alþingi gerir uppreisn og segir: Uppreisn Alþingis. Það gæti bæði þýtt að Alþingi rísi upp og verði mikið og merkilegt og eins að það gerir byltingu. Þetta er sem sagt tvírætt orðalag, uppreisn Alþingis, (Gripið fram í: Gott.) og meira að segja stuðlað. Ég held að þetta sé krafa tímans.

Þessa ákvörðun um breytingu mundu alþingismenn taka með sjálfum sér og segja við ráðherrana: Ef þið viljið gera einhverja breytingu á lögum skulið þið snúa ykkur til viðkomandi nefndar og spyrja hana hvort hún sé til í að semja um það frumvarp. Hið sama gætu einstaklingar, fyrirtæki og samtök gert. Þau geta snúið sér til nefndarinnar og sagt: Það vantar að laga eitthvað t.d. í barnaverndarlögum. Þau gætu t.d. sagt það við félagsmálanefnd eða allsherjarnefnd eða hvað sem það heyrir undir. Það þarf að breyta einhverju í umferðarlögum. Þá tekur sú nefnd ákvörðun um hvort hún mun vinna að málinu eða ekki. Allir nefndarmenn kæmu að sjálfsögðu að vinnslu málsins, stjórnarandstaðan líka. Hún getur orðið undir í málinu af því menn eru ekki sammála henni en þá verður það bara þannig. Hún veit þó hvað er að gerast.

Þetta yrði tiltölulega einföld breyting, mjög einföld. Við þyrftum að sjálfsögðu að stækka nefndasviðið mjög mikið. Við mundum flytja fólkið úr ráðuneytunum því að það erum við sem borgum það hvort sem er. Alþingi veitir fjárveitingar. Það getur veitt þær til nefndasviðs eins og til ráðuneytanna til að semja frumvörp.

Þetta er breyting sem ég held að mundi styrkja Alþingi óskaplega mikið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég legg til að þingmenn komandi þings eftir kosningarnar, eftir prófkjörin og allt saman, stuðli að þessari breytingu.

Varðandi fjárlögin er ég sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að þingið á að gera rammafjárlög. En sérnefndirnar eiga ekki að úthluta peningunum. Það á viðkomandi ráðuneyti að gera og bera á því ábyrgð gagnvart þinginu. Þær fjárveitingar sem þingið samþykkir ber enginn ábyrgð á vegna þess að þingið á að hafa eftirlit með þeim. En það samþykkti þessar fjárveitingar sjálft, þar er nefnilega brotalömin.

Mér finnst að þingið eigi að setja rammafjárlög og segja t.d.: Menntamálanefnd eða fjárlaganefnd samþykkir að í söfn eigi að setja svo og svo mikla peninga., 300 millj. kr., eða hvað það er. Leggja á jafna áherslu á landsbyggðina og Reykjavíkursvæðið og leggja áherslu á þetta og hitt. Svo fer peningurinn út til ráðuneytisins og viðkomandi ráðherra setur kannski allt saman í kjördæmið sitt. Ef hann gengur þannig þvert á vilja Alþingis í þeim efnum verður samþykkt á hann vantraust. Þá ber hann ábyrgð gagnvart Alþingi vegna fjárveitinganna.

Það sem ég legg til er að Alþingi taki til sín löggjafarvaldið, sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni en hefur afsalað sér einhvern tímann í ferlinu, en láti frá sér framkvæmdarvaldið sem það hefur tekið til sín í gegnum tíðina.

Alþingi ræktar fíkniefnahunda í Vestmannaeyjum. Það er reyndar búið að taka það út, ég hef gert mikið grín að þessu. Alþingi þýðir bækur og stendur í alls konar málum. Það byggir torfkofa á Grænlandi og ég veit ekki hvað. Það er með ólíkindum hvað Alþingi skiptir sér af framkvæmdum. Það ber enginn ábyrgð á slíkum framkvæmdum þannig að ég legg til að menn fari að mínum ráðum.

Ég get tekið undir allt í þeirri góðu umræðu sem átti sér stað áðan um lýðræði í nefndunum og nefndarformennsku. Mér fannst það mjög góð umræða og hún á að fara fram. Ég vil endilega að innan þingsins sé lýðræði. En það er fleira sem ég vil benda á. Í umræðum í þinginu fær stærsti flokkurinn jafnmarga menn í eldhúsdagsumræðum og minnsti flokkurinn sem þarf jafnvel að mæta tvisvar í ræðustól af því hann hefur ekki nógu mikinn mannskap. Það finnst mér mjög ósanngjarnt. Ég hef stundum stungið upp á því í gríni að Sjálfstæðisflokkurinn mundi kljúfa sig í tvennt til að fá tvöfalt fleiri ræðumenn. Það er líka eitthvað sem þarf að laga varðandi nefndarformennsku.

Við ræddum um daginn um stjórnarskrá sem Framsóknarflokkurinn kom með. Þar voru að vísu nokkrir tæknilegir gallar en ég held að það sé líka eitthvað sem við þurfum að taka á. Ef maður les stjórnarskrána sést að hún er skrýtin, mjög skrýtin. Það stendur að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki. Forsetinn skipar æðstu embættismenn o.s.frv. Hann skrifar undir lög og einhver gæti haldið að hann sé afskaplega valdamikill maður. Svo kemur ein lítil grein þar sem segir að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt og allt hitt er bara allt í plati. (Gripið fram í.) Þannig að stjórnarskráin segir ekki rétt frá. Hún á að segja rétt frá. Það þarf að laga hana alveg frá grunni og á það hefur verið bent undanfarið.

Ég held að það sé mjög mikilvægt til að svara kalli tímans. Til að svara kalli almennings, til að svara kalli þjóðarinnar um aukið lýðræði og aukið gagnsæi þurfa menn virkilega að fara að skoða þessa hluti og ég held að nú sé lag. Það er ekki lengur skortur á katastrófu. Við höfum lent í gífurlegu áfalli og menn eru tilbúnir til að gera breytingar. Þá eiga menn að nota tækifærið og breyta.

Ég held að það gæti orðið þjóðinni mjög til hagsbóta til framtíðar litið ef menn mundu virkilega ætla að breyta. Það frumvarp sem við ræðum hér er eitt af tveimur skrefum eða þremur sem þingið hefur staðið frammi fyrir í þeim efnum. Búið er að samþykkja verulega breytingu á þingsköpunum sem var að mínu mati mikið til bóta. Ég vil aftur þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir frumkvæði hans í því máli. Síðan eiga menn að ræða frumvarpið og gera á því breytingar ef þeim sýnist og samþykkja það.