136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem hv. þm. Pétur Blöndal segir og tekur undir. Hann hefur áður flutt tillögur um þetta og hefur haft og er með svipaðar skoðanir á þessum málum og ég. Það er því ekki annað hægt en að fagna því.

Þetta virkar oft þannig á menn að þeir þykjast vera sammála málinu þangað til það fer í nefnd. Svo þegar það liggur í nefndinni vilja þeir ekki eða treysta sér ekki til að greiða atkvæði gegn málinu, hvernig sem það er, eða samþykkja það. Þetta er mjög slæmur siður hjá þingmönnum í þingnefndum að afgreiða ekki málin hvort sem þau eru æskileg eða ekki. Þá kemur auðvitað í ljós hvað menn vilja og þá kemur betur í ljós hvað þingmenn vilja í þessum málum. Þeir geta ekki falið sig með því að salta mál í nefndum.

Mér finnst sjálfsagt að koma inn á þetta. Ég tel það vera mikið atriði að fá þingið og nefndirnar til að starfa eftir eðlilegum vinnubrögðum. Ég tel að það sé partur af því að ganga þannig til verka að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það hvernig við svo sem greiðum atkvæði um mál. Það liggur þá ljóst fyrir hvað menn vilja gera í þeim efnum.