136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

afgreiðsla efnahags- og atvinnumála.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætisupprifjun hjá hv. þingmanni á þeim þrem meginatriðum sem bankastjórinn tilgreindi sem mundu vekja okkur bjartsýni, það er að ríkissjóður var rekinn með afgangi, það er alveg rétt. Við höfum líka vel menntaða þjóð og vinnufúst fólk. Það er okkur öllum áhyggjuefni að atvinnuleysi er að aukast og hefur aukist meira en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði 5,7% atvinnuleysi en við sjáum að það stefnir hærra og verður kannski um 10% í apríl. Ríkisstjórnin hefur auðvitað verið að róa að því öllum árum að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði það mikið, m.a. með ýmsum málum sem liggja fyrir þinginu og hafa ekki verið afgreidd.

Ég nefni t.d. virðisaukaskattsmálið sem skiptir verulegu máli upp á viðhaldsframkvæmdir og fleiri mál eru hér fyrir þinginu sem snerta atvinnulífið. Það sem mun væntanlega koma fram í þessari viku eru ýmis mál sem eru til þess fallin að efla atvinnulífið og koma vonandi fram í ríkisstjórn á morgun. Við viljum setja meiri kraft í viðhaldsverkefni að því er varðar opinberar framkvæmdir og ég vænti þess að við munum sjá það nú í þessari viku, og ýmislegt annað mætti nefna.

Ég vil líka nefna að vissulega skipta fyrirtækin miklu máli í þessu sambandi og að við getum endurreist bankakerfið eins og við erum að vinna að til þess að koma atvinnulífinu í gang. Þar skiptir meginmáli líka að við getum farið nokkuð hratt á næstunni í lækkun á stýrivöxtum. Ég tel að aðstæður séu að skapast til þess og það vona ég að við sjáum fyrr en seinna.

Ég nefni að lokum aðgerðir fyrir heimilin í landinu sem bíða m.a. í nefndum þingsins. Ég treysti á að sjálfstæðismenn hjálpi okkur (Forseti hringir.) við að afgreiða þau mál í gegn.