136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

afgreiðsla efnahags- og atvinnumála.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég er sammála hv. þingmanni, það eru fyrst og fremst atvinnumálin, efnahagsmálin og aðgerðir til að bæta stöðu heimilanna sem skipta máli. Við erum sammála um að það er það sem þessi ríkisstjórn leggur megináherslu á. Ríkisstjórnin hefur afgreitt frá sér um 30 mál inn í þingið. Ég hef ekki alveg fylgst með því hvort þau eru öll komin til þingsins eða í þingnefndir en þau eru öll í ferli. Það er afar mikilvægt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að stjórnarandstaðan ætli með stjórnarliðum að greiða fyrir því að þessi mál öll, sem skipta máli fyrir heimilin í landinu, þau sem hv. þingmaður taldi upp og fleiri, nái fram að ganga sem allra fyrst.

Ég hygg að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um það að okkur mun ekki duga tíminn fram til 12. mars að afgreiða öll þessi brýnu mál sem við þurfum að afgreiða og skipta máli fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu eins og hv. þm. Geir Haarde nefndi hér áðan.