136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

skuldir heimilanna.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að framsóknarmenn hafa lagt fram tillögur sínar í efnahagsaðgerðum og aðgerðum vegna heimilanna í landinu og það er margt ágætt í þeim tillögum sem samræmist mörgu því sem við erum að gera í ríkisstjórninni. En ég verð að segja það varðandi tillögurnar um 20% flatan niðurskurð á skuldum að ég dreg í efa að þær séu skynsamlegar. Ég spyr hv. þingmann að því hvort hann hafi látið meta hvað það kostar að fara í slíkar afskriftir. (Gripið fram í.) Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir grípur hér fram í og eftir því sem okkur sýnist við fljótlega skoðun á þessu máli erum við að tala um 1.200 milljarða kr. og auðvitað verður að svara því hvaðan taka eigi þá peninga. Eigum við að taka þá með aukinni skattheimtu eða niðurskurði? Við getum líka spurt okkur hvort skynsamlegt sé að fara í flatan niðurskurð fyrir alla óháð því hvort fólk þarf á því að halda eða ekki.

Við höfum verið að bíða eftir niðurstöðu frá Seðlabankanum þar sem verið er að kortleggja vanda heimilanna, hve margir eru komnir í mjög slæma stöðu sem við þurfum að fara í að aðstoða. Ég á von á því að það liggi fyrir fljótlega. Það er einmitt það sem við höfum verið að bíða eftir. Við höfum farið í ýmsar björgunaraðgerðir sem liggja fyrir þinginu en við höfum verið að bíða eftir því að fá þessa niðurstöðu til að geta greint hvernig við getum tekið á vandanum til lengri tíma litið, bæði að því er varðar fólk með verðtryggðar skuldir og mynkörfulánin, ekki síst þann hóp sem hefur verið að festa kaup á íbúðum á síðustu þrem til fjórum árum. Ég tel alveg ljóst að við þurfum að fara út í einhverjar aðgerðir til þess að bjarga því.

En engum er greiði gerður með því að leggja skuldabyrði á þjóðina með 20% flötum niðurskurði (Forseti hringir.) sem er kannski hærri og meiri skuldbinding en við stöndum frammi fyrir vegna hrunsins.