136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Aldrei fyrr hefur þjóðinni verið eins mikilvægt að búa við öfluga matvælaframleiðslu og nú. Það fer því vel á því að þessi umræða um stöðu landbúnaðarins skuli fara fram um leið og búnaðarþing Bændasamtaka Íslands er haldið á Hótel Sögu. Umræða um mikilvægi landbúnaðarins og framtíð hans er með brýnustu málum dagsins í dag og hvernig við sem þjóð ætlum að sjá þennan grunnatvinnuveg þjóðarinnar þróast.

Efnahagsáfallið hefur reynst okkur dýrkeypt. Því miður hefur umræðan farið út og suður og fyrst og fremst einkennst af skyndilausnum í stað þess að við lítum til þeirra auðlinda sem við eigum til sjávar og sveita. Sem betur fer hefur verið staðinn vörður um þennan grunnatvinnuveg þjóðarinnar, en við skulum hafa það hugfast að öfl í samfélaginu voru reiðubúin að fórna landbúnaðinum á altari nýfrjálshyggjunnar og fyrir skyndilausnir Evrópusambandsins.

Fjöldi sauðfjár- og kúabúa sér nú fram á erfiða tíma. Mörg þeirra eru í verulega þröngri fjárhagsstöðu í kjölfar uppbyggingar og fjárfestinga. Vandi þessara búa er jafnvel meiri en gengur og gerist hjá fyrirtækjum þar sem fjölskyldu- og búrekstur er saman í einni sæng. Rekstrarstöðvun getur því haft mun verri og alvarlegri afleiðingar en hjá hefðbundnum fyrirtækjum þótt ekki sé gert lítið úr þeim vanda.

Þegar sauðfjár- og mjólkursamningarnir voru gerðir fyrir nokkrum árum sáu bændur í fyrsta skipti í langan tíma fram á við í búgreinum sínum. Það var því algert reiðarslag þegar síðasta ríkisstjórn ákvað einhliða að afnema vísitöluákvæðin í búvörusamningnum á einu bretti. Það þarf í rauninni ekkert að deila um það að þarna er verið að brjóta lög. Það sem er alvarlegast í þessu er að gríðarleg hækkun vísitölu hefur m.a. leitt til þess að verð á algengum tegundum áburðar hefur hækkað um 45–55% á milli ára. Til að lýsa því hversu gríðarlegur baggi þetta er á bændur hafa útgjöld meðalstórs kúabús aukist frá árinu 2007 úr 960 þús. kr. í um 2,5 millj. kr. nú í vor. Útgjaldaaukningin er því tæpir 2 milljarðar kr. á tímabilinu. Hefði ekki verið nær að mæta þessum hækkunum með því einu að standa við gerða samninga? Mun hæstv. landbúnaðarráðherra beita sér fyrir því að leiðrétta þetta skýra brot á búvörusamningnum við bændur?

Af hverju telur ríkisstjórn Íslands það í lagi að svíkja samninga við bændur um leið og hún skýlir sér á bak við það að samninga Evrópusambandsins megi ekki rjúfa og því verði að leyfa innflutning á hráu kjöti? Ég gat ekki skilið ræðu hæstv. landbúnaðarráðherra á búnaðarþingi í gær öðruvísi.

Á Íslandi hefur náðst aðdáunarverður árangur í baráttunni við illvíga sjúkdóma sem herja á bústofna. Við státum okkur af hreinum og ómenguðum afurðum og þeim árangri má ekki glutra niður. Engin þörf er á að innleiða matvælalöggjöf ESB og fórna um leið ofangreindum íslenskum hagsmunum. Lagastofnun Háskóla Íslands hefur sagt að hægt sé að óska eftir meiri vernd á grundvelli reglna í viðbótarábyrgðum í WTO-samningum auk þess sem hægt er að beita 13. gr. EES-samningsins þar sem aðildarríkjum samningsins er gefin heimild til að ákveða hvaða heilsustig þeir vilja hafa að uppfylltum skilyrðum. Það eru því skýrar heimildir fyrir því í reglum ESB og EES að takmarka innflutning á búfjárafurðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ef ekki hefði verið staðinn vörður um landbúnaðinn hefði honum verið fórnað fyrir hinn nýja tekjustofn þjóðfélagsins sem fólst í því að kaupa og selja froðupeninga. Um leið voru öfl reiðubúin til að gefa stóran hluta landbúnaðarins eftir í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá. Ef svo ólíklega vildi til að þjóðin mundi ákveða að fara í aðildarviðræður er það líka algjört skilyrði okkar framsóknarmanna að ekki verði gefin tomma eftir af þessari mikilvægu auðlind okkar Íslendinga.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um landbúnaðinn sem er vel fallinn til nýsköpunar og að skapa ný störf. Mörg tækifæri eru í ferða- og gistiþjónustu bænda auk þess sem huga verður vel að skógrækt og landgræðslu sem bændur víðs vegar um landið hafa staðið fyrir.

Ég skora því á hæstv. landbúnaðarráðherra að beita sér á þeim stutta tíma sem þessi ríkisstjórn hefur til að styrkja landbúnaðinn sem einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og þann sem mesta möguleika á til uppbyggingar og framþróunar íslensks samfélags.