136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[15:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hér umræður um stöðu landbúnaðarins. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að vel fer á því að þau mál séu tekin fyrir á þingi samhliða því að búnaðarþing hefur störf, en það var sett í gær eins og hv. þingmaður vitnaði í. Þar fór ég í ávarpi yfir nokkur af þeim málum sem hér bar á góma og gerði grein fyrir því hvað ríkisstjórnin hefur aðhafst í sambandi við nokkur knýjandi og brýn hagsmunamál landbúnaðarins.

Segja má að vandi landbúnaðarins sé tvíþættur. Annars vegar hefur hann að ýmsu leyti tekist á við óhagstæða þróun ytri skilyrða undanfarin eitt til tvö ár, sérstaklega voru það hækkanir á aðföngum, olíu, kjarnfóðri, áburði og fleiru sem þegar lágu fyrir sem voru verulega íþyngjandi fyrir landbúnaðinn áður en síðan kom til þess efnahagshruns sem nú hefur dunið á og þá kemur að sjálfsögðu við sögu, í landbúnaðinum eins og í fleiri greinum, skuldsetning og hækkun lána. Þannig liggur t.d. ljóst fyrir að margir kúabændur sem hafa verið að fjárfesta, hafa verið að stækka bú sín og tæknivæða, eru verulega skuldum hlaðnir. Í þriðja lagi má segja að bændur fari ekki frekar en aðrir varhluta af hinum almennu erfiðleikum. Þess sér m.a. stað í því að nú þegar gætir nokkurrar sölutregðu eða samdráttar í sölu á tilteknum afurðum landbúnaðarins. Sölutölur nú á fyrstu mánuðum þessa árs eru lægri hvað varðar ost, kjöt og fleira en þær voru á sama tíma í fyrra.

Sú skerðing sem hv. þingmaður nefnir hér á verðbótum búvörusamnings er staðreynd. Hún var ákveðin af Alþingi og fyrri ríkisstjórn með fjárlögum hér fyrir áramótin. Þau fjárlög gilda og binda hendur framkvæmdarvaldsins. Engar fjárheimildir eru til þess að gefa bændum vilyrði um að þessi skerðing gangi til baka og fyrr en hennar hefur þá verið aflað með fjáraukalögum eða öðrum hætti er ekki um annað að ræða en að ganga út frá þeirri skerðingu. Hv. þingmaður þekkir þær aðstæður í ríkisbúskapnum og horfum hvað varðar t.d. næsta fjárlagaár sem við okkur blasa og veit hvert svigrúm ríkisins er til að takast á við þessa hluti.

Varðandi innflutning á hráu kjöti og innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins væri fróðlegt fyrir hv. þingmann að ræða við flokkssystkini sín, þau sem báru verulega ábyrgð á því í hvaða farveg það mál er komið með því að ganga til þeirra samninga við Evrópusambandið, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra, sem ég veit að hv. þingmaður hefur góðan aðgang að til að ræða málið við.

Þetta mál er í höndum þingsins. Það er á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og þar er málið í skoðun þannig að í raun og veru er það í höndum Alþingis að vinna úr málinu. En það er hins vegar algjörlega ljóst að þingið hefur fullan stuðning minn til þess að skoða allar þær takmarkanir og girðingar sem mögulegar eru í þessum efnum, auk þess sem ég sagði það í ræðu minni á búnaðarþingi í gær að þetta mál er augljóslega ekkert sérstakt forgangsmál núverandi ríkisstjórnar á þeim stutta tíma sem hún hefur til starfa. Aðrir hlutir er þar ofar á blaði og vel þekktir, björgunaraðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs.

Varðandi áburðarverð þá er það í skoðun að reyna að nýta í einhverjum mæli fjármuni úr Bjargráðasjóði til þess að létta bændum áburðarkaup í vor. Það mál er ekki í höfn og um það liggur ekki fyrir niðurstaða og ekki samkomulag. Því miður munu þeir takmörkuðu fjármunir sem þar kunna að vera til ráðstöfunar ekki gera nein kraftaverk í þessum efnum. En það gæti þó hjálpað ef samkomulag tekst um að grípa þar til einhverra fjármuna. Ella er hætt við því að áburðarreikningurinn, jafnvel þó nú sé spáð um 20% minni áburðarkaupum í vor, verði af svipaðri stærðargráðu og hann var fyrir ári, eða um 2,5 milljarðar kr.

Varðandi virðisaukaskatt þá kynnti ég líka á búnaðarþingi í gær aðgerðir sem gripið hefur verið til í þeim efnum til þess að auðvelda bændum virðisaukaskattsskil eða koma í veg fyrir að bændur þurfi að leggja út fyrir umtalsverðum virðisaukaskatti nú á gjalddaga í mars sem þeir síðan eigi rétt á endurgreiðslu á í haust. Það hefur verið gert annars vegar með því að beina tilmælum til skattstjóra um að lækka álögur og hins vegar með því að nýta heimildir í lögum til að bjóða bændum upp á það, þeim sem þess óska, að gera aukauppgjör síðar á vorinu þannig að virðisaukaskattsskil þeirra leiðréttist að þessu leyti og ekki verði um fjárbindingu í marga mánuði að ræða.

Raforkukostnaður grænmetisframleiðslunnar er til skoðunar og landbúnaðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið munu í bréfi beina tilmælum til bankastofnana í dag eða á morgun að aðstoða bændur eftir föngum í sambandi við fjármögnun áburðar og fleiri hluti sem þar eru brýnir.

Ég gæti líka nefnt ýmis önnur mál ef tíminn leyfði, virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi skógrækt og fleira sem ég kom líka inn á í ræðu minni á búnaðarþingi — ég leyfi mér að vísa til hennar sökum þess að ég hef ekki tíma til að fara yfir fleiri mál í (Forseti hringir.) þessari umferð.