136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:04]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Erfið rekstrarskilyrði atvinnurekstrar í landinu leggjast auðvitað þungt á bændur eins og aðrar stéttir. Engum blöðum er um það að fletta og hér hefur auðvitað verið rakið að aðföng hafa hækkað gríðarlega í verði og brauðfætur bankanna bitna á bændum, eins og öðrum fyrirtækjum í landinu. Í umræðunni hafa verið raktar ytri aðstæður sem ógna stöðu bænda nú um stundir og rétt er að taka undir þær þungu áhyggjur sem menn hafa lýst hér.

Eins og kom fram í máli formanns Bændasamtakanna á búnaðarþingi í gær, hefur áburðarverð hækkað mjög verulega og ráðherra landbúnaðar og fjármála verður að tryggja með öllum ráðum og beita sér fyrir því að bankarnir verði í stakk búnir til að veita fyrirgreiðslu vegna áburðarkaupa. Ég tek undir þær hugmyndir sem menn hafa haft um að Bjargráðasjóður hlaupi undir bagga og verði nýttur til að hjálpa til við áburðarkaupin. Þær tilslakanir sem gerðar hafa verið varðandi virðisaukaskattinn eru góðra gjalda verðar en ég hlýt líka að spyrja hvort ráðherrann hafi skoðað aðrar leiðir, svo sem að gera mönnum kleift að dreifa greiðslum á fleiri gjalddaga.

Þessi viðfangsefni eru auðvitað að detta í fangið á mönnum núna og tryggja þarf að búvöruframleiðsla haldi áfram í landinu. Við megum ekki við því að missa niður taktinn í þeirri starfsemi svo ekki sé talað um allar þær afleiddu afleiðingar sem slíkt hefði. Þúsundir starfa eru í húfi og rétt að minna á að um það bil 10 þúsund störf í landinu eru tengd landbúnaði, þ.e. 7,5% af vinnumarkaðnum, 15% af störfum á landsbyggðinni eru tengd landbúnaði (Forseti hringir.) en það sem kemur kannski á óvart er að 1.400 störf á höfuðborgarsvæðinu eru tengd landbúnaði.