136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[16:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir góðar undirtektir við þetta frumvarp. Það er í þeim anda sem hv. þingmaður vann sjálf í þegar hún var iðnaðarráðherra á sínum tíma og kom m.a. á laggir Orkusetrinu á Akureyri sem hún beindi til mín nokkrum spurningum um. Fyrst vil ég þó segja að ég tel að með því sem í þessu frumvarpi er kallað visthönnun, og hönnun almennt, sé hægt að spara alveg gríðarlega mikla orku. Við sjáum að nú er að koma á markaðinn ný tegund af perum sem er hönnuð öðruvísi en forverar hennar en þessar ljósaperur nota kannski 5% af því orkumagni sem hefðbundnar ljósaperur nota. Ég minnist þess líka að þegar ég tók þátt í því að setja hönnunarmiðstöð í gang á sínum tíma var haldinn fyrirlestur þar sem tekin voru mörg dæmi um með hvaða hætti væri hægt að spara orku með hönnun. Það voru satt að segja alveg ótrúlegar tölur sem maður heyrði þar.

Á Íslandi höfum við búið við þá farsæld að við höfum haft gnótt af orku. Hér hefur raunverð á orku t.d. farið lækkandi síðustu tíu árin. Á sama tíma hefur það í flestum öðrum löndum verið á uppleið. Það hefur kannski líka gert okkur að hálfgerðum munaðarseggjum þegar kemur að orku. Við, almennir borgarar í landinu, höfum ekki lagt mjög mikla áherslu á að draga úr orkunotkun af því að gnótt hefur verið af henni og hún hefur verið tiltölulega ódýr. Átakið hefur kannski fyrst og fremst beinst að orku sem er innflutt. Ég er vitaskuld að tala um raforku úr jörðu og fallvötnum. Eigi að síður hafa stjórnvöld með margvíslegum hætti lagt gjörva hönd að verki í þeim efnum.

Hv. þingmaður spurði mig með hvaða hætti Orkusetrið á Akureyri, sem hún átti þátt í að koma á laggir, sinnti þessum málum. Frá því er skemmst að segja að Orkusetrið er með lífvænlegustu stofnunum iðnaðarráðuneytisins og ein af þeim stofnunum sem sýnt hefur hvað mest frumkvæði og nýja hugsun við að ryðja orkusparnaði brautina. Það er sjálfsagt að nefna alveg sérstaklega Sigurð Inga Friðleifsson, starfsmann Orkusetursins, sem hefur sýnt alveg ótrúlegt frumkvæði og ekki hikað við að koma og skaka skellum að ráðherranum ef honum hefur þótt hann seinn að hugsa í þeim efnum. Ég nefni sem dæmi að í ríkisstjórn í morgun lagði ég fram frumvarp um tvenns konar breytingar sem eiga sér algjörlega uppruna í Orkusetri. Nú er frumkvæði starfsmanna þar, þá sérstaklega þessa, sem varðar t.d. að breyta lögum um niðurgreiðslu húshitunar þannig að það heimilt sé, ef fjármagn er fyrir hendi, að verja meira en því 1% sem lögin heimila núna til þess að styrkja og ýta undir nýjar gerðir af vistvænni orku til að draga úr bæði rafhitun, ef hægt er, notkun orku í hana, og sömuleiðis til að draga úr notkun innflutts eldsneytis. Það skiptir máli. Það var í kjölfar tveggja tilraunaverkefna sem sú ágæta stofnun, Orkusetrið, stóð fyrir. Annað tilraunaverkefnið varðaði varmadælur en það er mál sem hv. þingmaður þekkir og margsinnis hafa verið gerðar skýrslur um. Það er þó ekki fyrr en núna á síðustu missirum að augu Íslendinga, og þá fyrst og fremst fyrir frumkvæði og eftirfylgni Orkusetursins, hafa opnast fyrir þessu. Jafnframt hafa nýjar tegundir varmadælna komið á markaðinn sem eru miklu nýtnari en hinar fyrri. Árangurinn er satt að segja ótrúlegur og það liggur fyrir með mjög skýrum og einföldum útreikningum að með því að beina nýtingunni að varmadælum er hægt að spara fyrir ríkið og fyrir þann sem hana notar.

Fólk er nú hvatt til að gera þetta með styrkjum þannig að styrkirnir sem hv. þingmaður þekkir sjálf úr sinni ráðherratíð, höfum við verið að lögum að veita hitaveitum í formi eingreiðslna sem jafngilda átta ára niðurgreiðslu á því svæði sem ný hitaveita nær til. Sömu meginhugsun verði beitt varðandi varmadælur, hvort sem um er að ræða einstakling sem býr í strjálbýli, á köldu svæði, eða þá eins og í Vestmannaeyjum þar sem menn reyna að þróa nýja tækni til að dæla varma hafsins á land og beita í fjarvarmaveitu. Þetta er alveg stórsniðugt. Þarna er um að ræða algjört frumkvæði Íslendinga að þessu marki að því er t.d. Eyjarnar varðar.

Þetta var annað og hitt var síðan það að tilraunaverkefni fór í gang að frumkvæði Orkusetursins í tengslum við nokkur sveitarfélög um einangrun húsa og ákveðinn stuðning til að koma því af stað. Frá því er skemmst að segja að mikill er áhugi á því og það verður samvinnuverkefni iðnaðarráðuneytisins, Orkusetursins sérstaklega, Íbúðalánasjóðs og nokkurra sveitarfélaga. Tilraunaverkefnið laut að því að taka í gegn fjölbýlishús á landsbyggðinni og sjá hve miklum orkusparnaði væri hægt að ná fram með þessu. Það voru dálítið sláandi tölur.

Það sem mig langar mest að nefna varðandi Orkusetrið og frumkvæði þess er að við í iðnaðarráðuneytinu höfum verið að undirbúa það sem við höfum kallað orkuskipti sem felur í sér að reyna að hverfa frá því að nota innlenda orkugjafa á bíla og taka upp rafbíla, þ.e. að rafvæða bílana. Þetta er algjörlega að frumkvæði Orkuseturs, hugsunin á bak við þetta og stefnan sem mótuð hefur verið. Því hefur verið falið þetta verkefni og þeir hafa sannarlega staðið vel undir því. Þessi tiltekni starfsmaður, sem ég hef hér nefnt, ásamt samstarfsmönnum sínum, hefur haft veg og vanda af því og við höfum, ekki síst fyrir hans tilstuðlan og frumkvæði, gert t.d. samninga við erlenda bílaframleiðendur um að Íslendingar sitji að tilteknum hluta af fyrstu framleiðslu 2010, fjöldaframleiðslu Mitsubishi-verksmiðjanna. Þessi ágæti starfsmaður hefur einmitt verið settur í alþjóðlegan starfshóp af okkar hálfu til að sinna þessu og öðrum verkefnum. Ég mundi telja að þetta væri það sem upp úr stendur og það sem mun brjóta mest í blað af því frumkvæði og þeim jákvæðu afleiðingum sem hljótast af Orkusetrinu á Akureyri. Síðan þekkir hv. þingmaður að Orkusetrið hefur starfrækt heimasíðu þar sem menn geta slegið inn númerið á sínum eigin bíl og séð hversu miklu kolefni hann eyðir og borið saman við staðla sem Orkusetrið hefur sett upp. Menn geta notað það til viðmiðunar og séð þannig hvort þeir eru orkusóðar eða ekki. Þetta hefur leitt til þess, og ég þekki það úr mínu eigin umhverfi, að menn hafa farið eftir þessum leiðbeiningum. Olíufélögin hafa sömuleiðis óskað eftir sérstöku samstarfi um þennan þátt í starfsemi Orkusetursins þannig að af því að hv. þingmaður spurði mig með hvaða hætti þeir hefðu sinnt hlutverki sínu eru þessir fjórir þættir hinir markverðustu. Einn af þeim stendur algerlega upp úr sem er frumkvæði þeirra og dugur í því að ýta stjórnvaldinu út í að ryðja brautina fyrir rafvæðingu bílaflotans. Það skiptir langmestu máli.

Við erum eina landið í heiminum sem getur rafvætt allan bílaflotann án þess að byggja eina einustu virkjun. Það þarf ekki að leggja í neinn fjárfestingarkostnað til þess þannig að það er allt í plús. Ég segi það af því að hv. þingmaður spyr um málið, að þessir starfsmenn hafa verið í fararbroddi og í reynd fyrirmyndir um hvernig opinberir starfsmenn eiga að vera. Þeir hafa tekið það mikið frumkvæði sjálfir við að leiðbeina stjórnvaldinu, eins og þeim ber auðvitað skylda til, og hafa gert það af miklum krafti.