136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

69. mál
[16:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er hlynntur meginefni og grunnhugsuninni í því máli sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson flutti áðan. Ég er honum alveg sammála um það að þetta er mjög nauðsynlegt og til þess að slá fleiri og dreifðari stoðum undir okkar atvinnulíf þurfi að gera það sem hægt er til að efla sprotafyrirtækin sem eru lítil í dag en eru hins vegar sprotar morgundagsins, þau sem munu vaxa upp í það að vera styrkir stofnar og sterkir meiðir í atvinnulífi framtíðarinnar.

Ég er þrátt fyrir þá kreppu sem við Íslendingar erum í núna eigi að síður nokkuð hóflega bjartsýnn á framtíðina. Ég held að þó að Íslendingar séu að segja má í tvöfaldri kreppu — við höfum farið í bankakreppu og við höfum farið í gjaldeyriskreppu eins og mörg önnur ríki hafa gert — höfum við algjöra sérstöðu að því leytinu til að ekkert land, sem hefur lent í þessari bölvaðri klípu sem við höfum lent í, hafi jafnmikla möguleika á að vinna sig út úr henni og við Íslendingar.

Það er kannski þrennt sem ég vildi sérstaklega vekja eftirtekt á sem skiptir miklu máli. Allar undirstöður í íslensku samfélagi eru góðar. Þá er ég fyrst og fremst að tala um grunnásana í atvinnulífinu. Það vill svo til að við eigum sterka atvinnuvegi sem ekki bara skapa atvinnu daginn út og daginn inn heldur skapa líka mikinn gjaldeyri. Þegar við tölum um kreppuna, Íslendingar, verðum við að gæta okkar á því að búa ekki til sjálfstætt efnahagsvandamál úr víli og bölmóði. Við verðum að leyfa okkur að sjá það sem þó er jákvætt.

Það sem er jákvætt og það sem við getum notað til að vinna okkur út úr núverandi kreppu er í fyrsta lagi sjávarútvegurinn. Allar fréttir úr hafinu, nánast allar, eru góðar í dag. Þorskstofninn er á uppleið, loðnan hefur að vísu verið að angra okkur en það eru nýir stofnar eins og makríll sem vegna loftslagsbreytinga eru farnir að koma inn í efnahagslögsöguna og veiðast í miklu magni. Við höfum hafið tilraunaveiðar á nýjum tegundum eins og gulldeplu, norsk-íslenski síldarstofninn er á hraðri uppleið og margir sterkir árgangar sem þar er að finna.

Í öðru lagi nefni ég þá atvinnugrein sem hefur byggst á náttúru og menningu okkar þ.e. ferðaþjónustuna. Hin hliðin á þróun krónunnar er vitaskuld sú að Ísland, sem var eitt af dýrustu löndunum í heimi, er núna orðið miklu ódýrara en áður og bókanir og pantanir hjá ferðaþjónustunni og útlit er gott.

Í þriðja lagi nefni ég svo einn þátt til viðbótar sem er okkar endurnýjanlega orka, sem er auðvitað gróttakvörn sem mun mala okkur gull í framtíðinni og við þurfum auðvitað að nýta með skynsamlegum hætti.

Ég hef stundum sagt að þessu til viðbótar séu tvö leynivopn sem Íslendingar hafa inn í framtíðina. Það er í fyrsta lagi eitt af því sem ég og hv. þm. Grétar Mar Jónsson höfum verið mjög sammála um en aðrir þingmenn hafa oft gert skop og sett á okkur flím og sprok vegna þess, og það er olían. Ég er algjörlega sannfærður um að Íslendingar munu finna vinnanlegt magn af olíu og gasi í framtíðinni. Það bjargar okkur hins vegar ekki núna en það er eitt af því sem veitir okkur líka von inn í framtíðina. Hitt leynivopnið eru svo sprotafyrirtækin sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Við höfum yfir 200 sprotafyrirtæki á Íslandi. Umhverfi þeirra og bætur á því heyra undir ráðuneyti mitt, iðnaðarráðuneytið, og ég hef fylgst ákaflega vel með hag þeirra og sinnt þeim eins og kostur hefur verið á. Það er ákaflega fróðlegt að sjá að nánast öll þau fyrirtæki sem ég hef einhver afskipti haft af eða kynnt mér búa við góð tíðindi, þ.e. þau eru að bæta við sig fólki, þau eru ná betri markaðshlutdeild erlendis og þau eru mörg að ná góðum fjárfestingarsamningum, ná góðum erlendum fjárfestingum sem eru stórar á þeirra mælikvarða. Ef einhver þessara fyrirtækja, fimm, sex, mundu þróast með svipuðum hætti og sprotafyrirtæki síðasta áratugar, eins og nafni minn Össur, Marel eða CCP, þýðir það einfaldlega sköpun fimm til sex þúsund starfa. Það er því hárétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það er eftir miklu að slægjast inn í framtíðina með því að reyna að styrkja umhverfi þeirra. Það höfum við einmitt verið að gera.

Hv. þingmaður nefndi að Samfylkingin hefði verið með ýmsar tillögur uppi. Það vill svo til að Samfylkingin er búin að hrinda þeim nánast öllum í framkvæmd, ég hef beitt mér fyrir því. Í fyrsta lagi höfum við þrátt fyrir kreppuna séð til þess að fjárveitingar voru auknar til Tækniþróunarsjóðs, sem er meginlífæð sprotafyrirtækjanna. Hann stendur núna í nánast 700 milljónum. Við sögðum að við ætluðum að tvöfalda hann á þessu kjörtímabili, það er á áætlun. Það eru ekki margir fjárlagaliðir sem jukust, herra forseti, en það sýndi vilja a.m.k. iðnaðarráðuneytisins, fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar með góðum stuðningi Framsóknarflokksins að slá undir klárinn varðandi þetta.

Sömuleiðis hef ég beitt mér fyrir því líka á þessu ári eftir að kreppan hófst að svara þeim mikla sköpunarkrafti sem segja má að hafi gusast fram í kjölfar kreppunnar, því að það var engu líkara en að kreppan hyggi fjötra af sköpunarkrafti Íslendinga. Á mínum ferli í ráðuneytinu hefur aldrei eins og eftir kreppu borist jafnmikið magn af góðum hugmyndum, en þeim er það mörgum sameiginlegt að þær eru á frumstigi og í dag er mjög erfitt að fá fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Þess vegna beitti ég mér fyrir því í janúar að búin var til ný tegund styrkja, þ.e. frumherjastyrkir, sem er beinlínis ætlað að styrkja þá sem eru með nýjar hugmyndir sem eru komnar skammt frá fæðingu, og aðstoða þá sem slíkar hugmyndir hafa til að koma þeim í búning þannig að hægt sé að gera þær styrkhæfar eða hægt að fá fjárfestingar. Þarna er um að ræða styrki allt upp í 10 milljónir króna sem dreifast yfir tveggja ára tímabil.

Sömuleiðis fann ég það líka eftir að kreppan slæmdi sínum hrammi á okkur Íslendinga að það var miklu erfiðara fyrir þá sem voru hugsanlega t.d. komnir í gegnum Tækniþróunarsjóð að fá fjármagn ef þeir stóðu með fullbúna afurð í höndunum og þurftu að koma henni á markað, að þá var þeim örendið þrotið. Það var þess vegna sem við ákváðum það líka að koma með nýja tegund styrkja, svokallaða brúarstyrki, sem brúa þetta bil á milli Tækniþróunarsjóðs og kynningar á mörkuðum erlendis. Þetta hefur skipt mjög miklu máli og það má segja að með því að gera sprotafyrirtækjum kleift með þessum hætti að komast á markað séu þau líka búin að yfirstíga þá hindrun að geta búið til trúverðuga viðskiptaáætlun sem er aftur forsenda þess að njóta einhvers konar stuðnings hjá Nýsköpunarsjóði.

Því má heldur ekki gleyma að ég lagði líka fram hugmyndir og hef reyndar hrint í framkvæmd hugmynd að nýjum styrkjum, svokölluðum öndvegisstyrkjum, til að lyfta undir rannsókna- og þróunarvinnu innan geira sem ekki hafði notið mikillar athygli eins og t.d. innlendrar eldsneytisgerðar, eins og sjálfbærrar ferðaþjónustu og sömuleiðis skipulags, hönnunar og arkitektúrs. Þarna er verið að koma til móts við mikinn fjölda hinna allra smæstu fyrirtækja sem eru að verða til og sömuleiðis þeirra sem eru komin með fullþroskaða afurð en hafa ekki burði til þess að koma henni á markað.

Þetta vildi ég segja til að undirstrika það að iðnaðarráðuneytið hefur virkilega tekið sprotafyrirtækin að brjósti sér og reynt að gera það sem kleift er til þess að bæta umhverfi þeirra þrátt fyrir þá kröpuu stöðu sem við erum í.

Við erum ekki olíuþjóð eins og Norðmenn. Sú tegund styrkja sem þeir hafa boðið sínum sprotafyrirtækjum og rannsóknafyrirtækjum upp á er mjög góð og hefur skilað miklum árangri. Ég er sammála hv. þingmanni að það er markmið sem við eigum að stefna að. Ég held að skattaívilnanir eða afbrigði af þeim, svipuð þeim sem hv. þingmaður nefnir, yrðu mjög jákvæðar inn í framtíðina. Mér skildist á ræðu hv. þingmanns að þær væru einkum bundnar við mjög lítil fyrirtæki, 10 manns eða minni, en ég er þeirrar skoðunar að skattaívilnanir af þessu tagi eigi að standa öllum rannsókna- og þróunarfyrirtækjum til boða. Ástæðan er sú að ég tel að til þess að búa til ný störf á Íslandi á þeim erfiðu missirum sem eru fram undan þurfum við að gera allt sem við getum til að fá stóru alþjóðlegu fyrirtækin okkar, eins og nafna minn, eins og Marel, eins og CCP, til að kalla fram sinn innri vöxt á næstu árum hér á landi. Tökum fyrirtæki eins og Marel, það er í matvælageiranum. Það er sá geiri sem alltaf réttir fyrst úr kútnum þegar heimur fer úr kreppu og auðvitað kemur að því að heimurinn fer úr núverandi kreppu. Slík fyrirtæki munu vaxa mjög hratt. Við þurfum þá að búa svo um hnútana að þau séu reiðubúin til að flytja allan sinn innri vöxt til Íslands. Við getum ekki gert þá kröfu á hendur þeim að þau segi upp fólki í útlöndum til þess að búa til störf fyrir Íslendinga, þetta eru alþjóðleg fyrirtæki þó að þau hafi heimilisfesti hér. Við eigum að gera þetta með tvennum hætti, með því að taka upp skattalegar ívilnanir eins og hv. þingmaður er að tala um og með því að bjóða þeim upp á stöðugt umhverfi hvað gjaldmiðilinn varðar og það þýðir að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þetta skiptir langmestu máli til þess að búa til störf á Íslandi á næstu árum.