136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:09]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það vekur töluverða athygli mína núna að bara þingflokkur Frjálslynda flokksins er hér í salnum og enginn nema forseti þingsins í salnum með okkur. Þetta segir dálítið um áhuga manna á sjávarútvegsmálum þrátt fyrir að sjávarútvegsmál og þingsályktunartillaga sem þessi geti gjörbreytt stöðu mála.

Nú gengur í sal hv. þm. Pétur Blöndal og þá erum við samtals fjórir þingmenn í salnum. Þetta er sorglegt og sérstaklega það að enginn ráðherra skuli vera hér og ekki neinir fulltrúar úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þetta segir töluvert um vinnubrögð í þinginu og ég skora á þá þingmenn sem heyra til mín að mæta hér og taka þátt í umræðunni um þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum að tala um og þingsályktunartillöguna sem við vorum að leggja hér fram um að innkalla fiskveiðiheimildir sem íslenska þjóðin á í rauninni og gera þær að raunverulegri eign þjóðarinnar en ekki fárra útvalinna sægreifa sem hafa hingað til getað leigt, selt eða braskað með veiðiheimildirnar.

Við stöndum frammi fyrir því að efnahagskerfið okkar er nánast hrunið og við þurfum að byrja upp á nýtt. Við þurfum að búa til nýtt Ísland og það er lykilatriði að ef við ætlum að byrja upp á nýtt og reyna að ná vopnum okkar og verða þjóð meðal þjóða þá þurfum við að byrja á því að taka fiskveiðistjórnarkerfið til gagngerrar endurskoðunar, taka þetta svokallaða gjafakvótakerfi af. Það gerum við með því að innkalla allar veiðiheimildir eins og gert er ráð fyrir í þessari þingsályktunartillögu.

Við eigum möguleika á að leigja út veiðiheimildir fyrir þess vegna 10 milljarða á ári, jafnvel 20 ef sama verð fengist og þeir sem eru á leiguliðamarkaðnum borga í dag fyrir þorskinn, þ.e. 160–170 kr. Fyrir mánuði síðan var leiguverð á óveiddum þorski á einu kílói 200 kr. þannig að eftir miklu er að slægjast fyrir ríkið að hafa yfirráðaréttinn yfir kvótanum og geta leigt hann út. Ég vil sjá það líka að hann verði allur seldur á fiskmörkuðum og að veiðar og vinnsla verði aðskildar. Margt þurfum við að gera í íslenskum sjávarútvegi. En þetta er það sem við þurfum að byrja á.

Það þarf ekki að fara einu sinni enn yfir hvers lags kerfi við búum við, þetta svokallaða gjafakvótakerfi. Það er búið að rústa störfum hringinn í kringum landið. Það er búið að rústa sjávarbyggðum hringinn í kringum landið og arðurinn sem gæti verið af fiskveiðum á Íslandi er miklu minni og hann er að renna til fárra útvalinna en ekki til heildarinnar. Tekjur sveitarfélaga, útsvarstekjur, skerðast. Skatturinn til ríkisins skerðist út af þessu kerfi, út af því leiguliðakerfi sem er innbyggt í þetta fiskveiðistjórnarkerfi.

Fyrir svo utan það gaf mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmu ári síðan það álit að þetta kerfi stæðist ekki og þess vegna þyrfti að breyta því, það þyrfti að taka það af að fáir útvaldir fengju kvóta úthlutað, þeir gætu nýtt hann til sölu til þriðja aðila og þeir sjómenn sem fóru með þetta alla leið til mannréttindanefndarinnar ættu að fá bætur. Ekkert hefur verið gert. Hvorki fyrrverandi. ríkisstjórn né núverandi ríkisstjórn sýna neina tilburði til þess að kippa þessum hlutum í lag og þeir sem kenna sig við sósíalisma og þykjast vera að berjast fyrir fólkið í landinu og mannréttindum eru ekki að standa sig sem skyldi. Ég skora á þá að bretta upp ermar og klára þessi mál og borga þessum ágætu sjómönnum sem fóru með þetta alla leið fyrir mannréttindanefndina bætur.

Við þurfum að fara nýjar leiðir og það er langeðlilegast að við gerum það eins og við leggjum til í þessari þingsályktunartillögu. Þetta er þannig að ekki verður búandi við það áfram. Margir mætir hagfræðingar hafa sagt að upphafið að ógæfu okkar hafi legið í gegnum fiskveiðistjórnarkerfið, þ.e. þegar það var byrjað afhenda kvóta ókeypis og leyfa mönnum að braska með hann. Þess vegna ætti í rauninni allur almenningur og fólk sem vill byrja upp á nýtt og endurbyggja Ísland að byrja á því að laga til þetta gjafakvótakerfi og færa þjóðinni aftur arðinn sem hún á skilið af fisknum í sjónum. Það er engin spurning um það að mikill arður er af sjávarútvegi. En hann hefur runnið til fárra útvalinna. Hvað er ekki búið að fara mikið af peningum út úr íslenskum sjávarútvegi upp á síðkastið, síðustu 10–15 ár? Óhemju, ómældir milljarðar hafa farið með einum eða öðrum hætti út úr greininni. Það er ekki ásættanlegt fyrir íslensku þjóðina að þola það.

Það er hægt að fara margar nýjar leiðir til þess að leiðrétta þessa fiskveiðistjórnarvitleysu sem við höfum búið við í 25 ár og sú sem við leggjum til í þessu frumvarpi er ein af þeim.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur ekkert fært okkur áfram á einn eða neinn hátt. En við byggðum upp Ísland á síðustu 100 árum fyrir það sem við höfðum upp úr hafinu. Það voru okkar gjaldeyristekjur. Það voru okkar tekjur sem við gátum notað til að byggja upp heilbrigðiskerfi, menntakerfi og annað. Þó svo að við stöndum frammi fyrir því núna að nánast allur sjávarútvegur er gjaldþrota út af þessu hruni bankakerfisins á haustdögum erum við og höfum möguleika til að bjarga okkur út úr þessari kreppu og það gerum við með því að nýta fiskinn betur, auðlindina í hafinu, veiða meira en við höfum gert af flestum tegundum. Það er ekki fjarri lagi að við gætum bætt við gjaldeyristekjur þjóðarinnar upp á 80 milljarða án þess að ganga á fiskinn í sjónum með þeim hætti að honum stafi hætta af því eða það mætti segja að við værum að fara í of mikla sókn. Það er auðvitað engin hætta á því.

Það eru þó gleðileg tíðindi núna að nú er alls staðar mikið fiskirí og mikill afli á flestum stöðum hringinn í kringum landið og hefur sjaldan eða aldrei meira af fiski gengið á miðin og auðvitað eigum við að nýta okkur þetta. Við þurfum að nýta okkur alla möguleika sem við getum. Auðvitað eigum við að nýta líka fallvötnin og orku í iðrum jarðar til þess að skapa okkur gjaldeyristekjur og skapa fólkinu atvinnu. Að veiða 50 þús. tonnum meira af þorski en við gerum gæti skapað 1.000–1.200 manns atvinnu. Það er mikill ábyrgðarhluti að fórna fólki frekar en fiski. Þó svo að við gengjum eitthvað á suma stofna okkar væri það skárri kostur en að ganga á fólkið okkar eins og við erum að gera í dag. Við horfum upp á mikla kreppu. Við horfum upp á mjög slæmt ástand meðal margra fjölskyldna í landinu og þess vegna er það leiðin okkar sem við höfum verið að vekja athygli á í Frjálslynda flokknum að okkur er óhætt að veiða meira af fiski. Í flestum tegundum getum við veitt meira af fiski og getum þar af leiðandi skapað meiri gjaldeyristekjur og fleiri mönnum atvinnu.

Þetta er það sem við þurfum að gera og þess vegna hvet ég alþingismenn sem sitja á þessu þingi til að taka þátt í þessari umræðu og náttúrlega veita þessari þingsályktunartillögu brautargengi (Forseti hringir.) og fá hana samþykkta.