136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um innköllun íslenskra aflaheimilda frá Frjálslynda flokknum.

Ég vil byrja á því að segja að í ljósi hruns á markaðnum eigi menn að sjálfsögðu að skoða allar leiðir og velta við öllum steinum því það er mjög mikilvægt sérstaklega þegar gerð eru fjárlög fyrir næsta ár að finna möguleika til að afla ríkissjóði tekna.

Svo vil ég benda á það, og sérstaklega hv. síðasta ræðumanni, að ég hef aldrei sett samasemmerki milli ríkis og þjóðar. Í síðasta lagi þegar ég þarf að fara að borga skattana mína uppgötva ég að það er ekki sami aðilinn, ríkið sem rífur af mér skattana og þjóðin sem ég tel mig vera hluta af. Það er mikill munur á ríki og þjóð.

Þann 11.11.1999, fyrir næstum tíu árum, lagði ég fram þingsályktunartillögu um að dreifa kvótanum á alla þjóðina og ég vænti þess að hv. þingmenn hafi lesið hana. Þar gerði ég mikinn greinarmun á þjóð og ríki og þar gekk ég út frá því að árlegum veiðiheimildum yrði dreift á hvern einasta íbúa á landinu, það kæmu u.þ.b. tvö þorskígildistonn á hvern íbúa og varanlegar aflaheimildir yrðu ekki lengur til. Varanlegar aflaheimildir yrðu teknar af útgerðinni á 25 árum, hæfilegri afskrift, 4% á ári, og þannig farið mildilega að útgerðinni og jafnvel þannig að hún mundi hagnast á því með því að fá vissu í málum sínum.

Í greinargerð með tillögunni sem við ræðum nú er gert ráð fyrir því að ríkið borgi skuldir útgerðarinnar með því að taka af þeim heimildirnar og þá er gert ráð fyrir því að allar útgerðir skuldi. Það er ekki endilega rétt forsenda. Hvað á gera við útgerðir sem skulda ekki neitt, á að borga þeim þessi verðmæti fyrir varanlegar aflaheimildir, á einu bretti? Það eru ýmsar spurningar varðandi þetta.

Þegar vextir lækkuðu í heiminum hækkaði eignaverð í öllum formum enda er það rökrétt. Eignir gefa af sér ákveðinn tekjustraum og þegar sá tekjustraumur er núvirtur með lægri vöxtum hækkar verðmætið. Þetta hafði bæði áhrif á fasteignaverð, hlutabréfaverð og kvótaverð, kvótaverð hækkaði mjög mikið. Þegar vextir hins vegar hækkuðu lækkaði þetta allt saman, öll þessi eignaverð, enda er þekkt samhengi þar á milli. Íbúðaverð lækkaði, hlutabréfaverð lækkaði og kvótaverð lækkaði líka og í þeirri stöðu erum við í dag. Þess vegna er skuldastaða sumra útgerðarfyrirtækja mjög slæm.

Það er ekki út af hruninu í haust, alls ekki, ég fullyrði að flest útgerðarfyrirtæki ættu að hafa bætt sig í hruninu. Það sem gerðist í kjölfarið var, ef maður lítur á stöðu útgerðarfyrirtækis frá sjónarhorni erlendrar myntar, hvort sem það er dollari eða evra, þá breyttust skuldirnar ekki neitt, tekjurnar breyttust ekki neitt heldur því þær eru beint tengdar gengi. Það sem breyttist var að innlendur kostnaður lækkaði. Hrunið sjálft gerði því ekkert annað en að skapa útgerðinni aukin tækifæri. Sama á við um ferðaþjónustu þó að tæknilega séð, vegna þess að skuldirnar eru reiknaðar upp á einu ári, þ.e. á árinu 2008, en tekjurnar koma á næstu fimm eða sex árum í erlendri mynt sem hefur hækkað mikið, þá geta menn tæknilega séð verið í miklum vandræðum og jafnvel gjaldþrota. En ef menn reikna þetta í erlendri mynt hefur ekkert gerst út af hruninu nema það sem er til bóta.

Eins og ég gat um áðan hefur eignaverð lækkað með hækkandi vöxtum og það getur verið að kvótaverðið sem er í eigu útgerðarinnar hafi lækkað vegna hækkandi vaxta en ekki vegna hrunsins í haust. Hafi útgerðirnar skuldsett þessi kvótakaup, sem margar þeirra hafa gert, þá geta þær lent í vandræðum en það er óháð hruninu. Það er bara vegna hækkunar vaxta á heimsmarkaði almennt.

Eins og ég gat um í upphafi er mjög mikið undir og mér finnst alveg sjálfsagt að menn velti við öllum steinum í stöðunni eins og hún er núna, hvort sem það eru kvótamál, eða lýðræði í verkalýðshreyfingunni eða lífeyrissjóðunum, hvernig stjórnir lífeyrissjóðanna eru kosnar, hvort sem það eru skattamál eða heilbrigðismál eða velferðarkerfið, við þurfum að velta við öllum steinum og reyna að finna hagkvæmustu lausnina á öllum hlutum og því er þessi tillaga er gott innlegg í þá umræðu.