136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var nú ekki sammála málinu en ég sagði hins vegar að það væri rétt að velta við öllum steinum í þeirri stöðu sem þjóðin er í núna, það er rétt að skoða öll mál.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði að þetta mundi safnast á fárra manna hendur hefur hann ekki skilið það sem ég sagði vegna þess að varanlegar heimildir hverfa. Einungis yrði úthlutað árlegum heimildum, á hverju ári til íbúa landsins, það yrði stöðugur straumur af veiðiheimildum til íbúa landsins, barna, aldraðra, öryrkja, verkamanna o.s.frv., allir fengju jafnt, u.þ.b. tvö þorskígildistonn á ári. Þá talaði hv. þingmaður um grömm og eitthvað slíkt af einhverjum sjaldgæfum tegundum og það er rétt en þetta mundu menn að sjálfsögðu bara selja í kvótasjóði. Það mundi myndast kvótasjóður sem mundi kaupa þessar árlegu veiðiheimildir, tvö tonn af hverjum manni, ég veit ekki hvort það er 75 þúsund kall eða hvað það yrði mikið, kvótaverðið mun að sjálfsögðu lækka allverulega og kvótinn mun væntanlega leita til þeirra sem geta veitt ódýrast, sem er líklega trillan. Ég geri ráð fyrir að trillan geti borgað mest fyrir þann fisk sem hún getur veitt á meðan togararnir geta ekki borgað eins mikið.

Ég geri ráð fyrir að það myndaðist einfaldlega kvótasjóður og þegar skipstjóri er búinn að veiða einhverja tegund getur hann leitað að markaði, hvort hann geti ekki keypt fyrir þetta veiðiheimildir, t.d. á leiðinni í land. Þetta yrði bara alltaf til sölu og alltaf til kaups, svona veiðiheimildir á markaði. Ég sé ekki annað en að þetta væri mjög líflegt og mundi leiða til þess að menn mundu veiða fiskinn eins ódýrt og hægt er.