136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:34]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um innköllun íslenskra aflaheimilda. Mig langar að blanda mér örlítið í þessa umræðu. Í tillögunni, m.a. í greinargerð, er greint frá því að tillagan sé fram komin vegna þeirra vandamála sem við eigum nú við að stríða vegna bankahrunsins.

Ég held, frú forseti, að einmitt vegna bankahrunsins ættum við að ganga hægt um gleðinnar dyr og fara ekki út í það að kúvenda öllum okkar kerfum, hvort heldur það er fiskveiðistjórnarkerfið, stjórnarskráin, kosningalöggjöfin eða hvað það nú er. Það er eins og menn séu að rjúka til og finna út einhver töfrabrögð á þessari stundu í íslensku samfélagi.

Ég held að við eigum að gæta okkar verulega varðandi það að rjúka upp á hinu háa Alþingi og breyta öllum lögum breytinganna vegna. Við vitum sem er að sjávarútvegurinn er mikilvægasta tekjulind okkar, gjaldeyristekjur eru langmestar frá sjávarútvegi og aukast hlutfallslega eftir bankahrunið frá sjávarútveginum. Við þurfum að skapa honum þau starfsskilyrði að hann búi við stöðuga og trygga löggjöf þannig að þeir sem leggja fjármuni til þessa atvinnuvegar viti hvar þeir standa en ekki kúvenda aftur og aftur hér á löggjafarþinginu starfsskilyrðum sjávarútvegsins. Ég vil vara við því að við förum að taka þessa þingsályktunartillögu of alvarlega. Ég held að við eigum að skoða þetta miklu betur en það að rjúka svona upp.

Frú forseti. Sjávarútvegurinn er okkar öflugasta gjaldeyristekjulind. Við erum jafnframt með miklar tekjur af orkunni sem við framleiðum og m.a. í formi útflutnings á áli. Við erum með gríðarlega öfluga ferðaþjónustu sem aflar gjaldeyris fyrir samfélag okkar og þar eigum við yfir að ráða gríðarlega miklum fjárfestingum í ferðaþjónustunni, sem eru bæði hótel, bílafloti, veitingahús og samgöngutæki. Við höfum einn stærsta þjóðgarð Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð. Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að hlúa að og gera þannig úr garði að við getum aflað gjaldeyris fyrir þjóðina eins og á stendur. Við erum jafnframt með aðrar greinar atvinnulífsins, eins og iðnað ýmiss konar og ég tala nú ekki um landbúnaðinn sem skapar gríðarlega mikil verðmæti sem við notum innan lands og sparar okkur gjaldeyrisútgjöld. Þessum greinum þurfum við að hlúa að.

Í dag er ástandið þannig að fiskverð fer lækkandi í Evrópu. Menn eru farnir að sigla aftur með afla beint á markað og það er birgðasöfnun hjá fiskframleiðendum í landinu. Það er því ýmislegt að gerast í umhverfi þessarar atvinnugreinar þannig að ekki er rétt að rasa um ráð fram og fara út í þær breytingar sem hér er talað um án þess að það sé ígrundað gríðarlega vel. Menn geta í sjálfu sér lagt fram þingsályktunartillögu af þessu tagi en ég held að þetta þurfi að skoða miklu betur í okkar samfélagi.

Síðan er það auðvitað framkvæmdin. Ég ætla ekki að fara að eyða orðum að því hvernig sú framkvæmd er hugsuð af hálfu þeirra sem flytja tillöguna. Fyrst og fremst, frú forseti, þarf að tryggja það að þessum atvinnuvegum, sem við erum að stóla svo mjög á og verðum að stóla mjög á varðandi gjaldeyrisöflun, sé ekki ógnað héðan frá löggjafarvaldinu þannig að menn hafi ekki vilja og áhuga á að vera í þessari atvinnugrein. Þetta er áhættusöm atvinnugrein og þeir sem stunda útgerð á Íslandi eru að verða langþreyttir á þeim kúvendingum sem verið er að bjóða upp á af og til af hálfu stjórnvalda.