136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið skondið að tala um gjaldþrot sem allur íslenskur sjávarútvegur er nú í einmitt núna, hann er nánast gjaldþrota. Það er líka dálítið skondið að þrátt fyrir þetta gjafakvótakerfi í 25 ár, þrátt fyrir að menn hafi fengið að veðsetja, leigja og selja ókeypis veiðiheimildir — og hvað er ríkisstyrkur? Fyrir tveimur árum var kvótinn metinn á þúsund milljarða í sölu. Hvað er ríkisstyrkur ef ekki það að fá ókeypis úthlutun verðmætis fyrir þúsund milljarða? Það er ríkisstyrkur.

Norðmenn eru ekki með ríkisstyrktan sjávarútveg, langt því frá, og þeir eru mjög arðbærir. Þessi ágæti sjávarútvegur og þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum er ríkisstyrkt síðustu 25 árin til handa fáum útvöldum sægreifum Þrátt fyrir það er greinin gjaldþrota. Þetta eru bara staðreyndir sem ekki er hægt að þræta fyrir.

Færeyingar eru með kerfi og þeir voru að lána okkur Íslendingum peninga fyrir stuttu þegar við þurftum á því að halda. Þeir höfðu efni á því í sínu sóknardagakerfi, í sínu dagakerfi, þar sem þeir hafa stjórnað fiskveiðum sínum af miklu meiri skynsemi en nokkurn tíma við. Þeir eru til þess hæfir og hafa til þess getu að lána okkur peninga. Það er því fáránlegt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að tala um að ekki megi verða kúvending í íslenskum sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er nánast gjaldþrota þrátt fyrir að hafa verið á ríkisstyrk í 25 ár upp á ómældar upphæðir sem kannski eru á einhverjum eyjum, fullt af þessum peningum, búið að fela þá og taka þá út úr atvinnugreininni sem slíkri.