136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:48]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Af nógu er að taka þegar farið er að tala um fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi síðustu 25 ár. Við erum að fara í gegnum þessa umræðu núna af því að við í Frjálslynda flokknum leggjum fram þingsályktunartillögu til að reyna að snúa ofan af mestu ógæfu, mesta slysi, í Íslandssögunni af manna völdum, þ.e. að innleiða gjafakvótakerfi sem við höfum búið við í 25 ár. Það á kannski meiri þátt í þeirri kreppu sem nú er en nokkur annar mannlegur gjörningur frá því að það var innleitt.

Til eru lausnir á því hvernig hægt er að komast út úr þessari kreppu. Við höfum lagt til lausnir. Við höfum lagt til að veiða meira af fiski. Við höfum talað um að auka útflutningstekjur þjóðarinnar um allt að 80 milljarða með því að sækja meira í hafið, vinna meira af fiski hér innan lands og gera ýmsar ráðstafanir, gera hlutina öðruvísi en við höfum gert. Við erum að leggja drög að nýju Íslandi. Við erum að leggja drögin og við þurfum að fá fólkið í landinu til að átta sig á þessu.

Það er lykilatriði í því að byggja upp nýtt Ísland að taka þetta bölvaða kvótakerfi af sem hefur farið illa með landsbyggðina alla, sjávarútvegsstaði hringinn í kringum landið. Þar hefur fólkið tekist á við kreppu þegar kvótar hafa verið fluttir í burtu og seldir. Einn einstaklingur í hverju sveitarfélagi getur tekið atvinnuna úr fiskvinnslunni, frystihúsinu eða útgerðinni með því að flytja skipið burt eða selja. Þetta er það sem við höfum búið við og þetta er mjög alvarlegt.

Okkur hefur heldur ekkert gengið að auka við fiskstofnana. Þeir hafa frekar minnkað og það kemur til af þessum kvóta, m.a. brottkast og annað. Þó að við vitum að ástandið á þorskstofninum er töluvert betra en fiskifræðingar hafa haldið hefur kerfið ekkert gert fyrir almenning á Íslandi nema skaða hann. Það er sorglegt til þess að vita að engin nýliðun hefur getað átt sér stað með eðlilegum hætti í þessari atvinnugrein.

Það er margt sem hægt er að koma inn á varðandi þá hluti sem snúa að fiskveiðistjórnarkerfinu, alls konar svindl og svínarí — mismunun á milli einstaklinga með fyrirgreiðslu. Á meðan ríkisbankarnir voru og eftir að ríkisbankarnir voru seldir var verið að skipta þessu eftir helmingareglunni hverjir fengu fyrirgreiðslu til að taka þátt í því að kaupa kvóta og voru raunverulega settir á til að lifa en aðrir slegnir af. Þetta er sú saga sem við höfum af kvótakerfinu og ekki er hægt að finna neitt gott sem fiskveiðistjórnarkerfið hefur leitt af sér.

Þegar við ætlum að byggja upp nýtt Ísland verðum við að byrja á því sem mestu máli skiptir í gjaldeyristekjum þjóðarinnar, að íslenska þjóðin fái arðinn af fiskinum, fái arðinn af veiðiheimildunum með þeim hætti að þær verði boðnar út eða sett á þær ákveðið verð. Það er tæknileg útfærsla hvernig það er gert, hægt að gera það eftir mörgum mismunandi leiðum. Það er hægt að bjóða veiðiheimildirnar upp á markaði. Það er líka hægt að setja á það ákveðna krónutölu og annað í þeim dúr. Við höfum alla möguleika til að fara nýjar leiðir og tryggja að þjóðin fái allan arðinn af fiskinum úr hafinu en til þess þurfum við að breyta hlutunum. Við þurfum að ná veiðiheimildunum, auðlind þjóðarinnar, til þjóðarinnar aftur.

Þingsályktunartillagan snýst um það að breyta kerfinu. Ég hvet þingmenn — þó að þeir séu ekki hér til staðar í salnum núna og enginn úr landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, svo skammarlegt sem það er nú, og alls ekki ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, hæstv. Steingrímur J. Sigfússon, hann lætur ekki svo lítið að láta sjá sig þingsal.