136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Mig langar í lok þessarar umræðu að fara nokkrum orðum um efni málsins og víkja að því sem m.a. hefur komið fram í máli manna.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði áðan að menn þyrftu að vita hvar þeir stæðu þegar verið væri að tala um fiskveiðistjórnarkerfið og breytingar á því. Til upprifjunar er rétt að minna á að fiskveiðistjórnarkerfinu hefur iðulega verið breytt en gegnumgangandi vilji í þeim breytingum hefur alltaf verið í eina átt, að festa kvótann niður meira og betur á þá sem fyrir eru í greininni en verið hefur. Í kvótakerfisframkvæmdinni hefur t.d. ein regla iðulega verið notuð þegar kvótasetja hefur átt einhverja fisktegund, það er svokölluð þriggja ára regla.

Hún var notuð í upphafi, hæstv. forseti, þegar kvótinn var settur á árið 1984, þá var notuð viðmiðunarregla fyrir þrjú fiskveiðiárin þar á undan og fundin út aflareynsla allra skipa. Því til viðbótar var svo fundin út aflaregla og aflaverðmæti skipa í sérveiðum, þ.e. skipa sem stunduð hörpuskel, humarveiðar og síldveiðar, svo að eitthvað sé nefnt, fundið á það sérstakt verðmæti hvað þessi skip hefðu í tekjur af sérveiðum sínum. Sérveiðarnar voru síðan mínusaðar frá til lækkunar á almennri úthlutunarreglu miðað við aflahlutdeild eða aflareynslu undanfarandi þriggja ára. Þetta var gert til að reyna að tryggja að aflinn dreifðist á flotann og öll skip hefðu verkefni. Það var meginmarkmið kvótasetningarinnar á sínum tíma að tryggja að útgerðin hefði verkefni þrátt fyrir minnkandi veiðiheimildir, sem þá var verið að spá, en á árinu 1983 veiddum við 283 þús. tonn.

Það var svo einkennilegt að á árinu 1984, fyrsta kvótaárinu, veiddum við nánast sömu tölu eða rétt rúmlega 280 þús. tonn. Sá svartnættisspádómur sem hafði komið frá fiskifræðingum í lok árs 1982 eða 1983, þegar ekki náðist að veiða upp í heildaraflann sem ráðgert var, reyndist ekki haldbetri en svo að strax á árinu 1984 veiddum við það sama í öðru kerfi sem þá var kvótakerfi og síðan meiri afla 1985 og 1986 og 1987, svo að því sé til haga haldið. En smátt og smátt voru allar útgerðir teknar inn í kvótakerfið. Tíu tonna bátarnir sem fyrst voru utan kvótakerfis voru teknir inn og kvótasettir niður í 16. Síðan voru smærri bátarnir enn og aftur teknir inn í kvótakerfið o.s.frv. og að lokum „fullkomnuðu menn kvótakerfið“ þegar mönnum tókst að leggja af handfæraveiðar á Íslandsmiðum og koma trillunum inn í kvótakerfið. Það varð til þess að handfæraveiðar hafa svo til lagst niður á stórum svæðum allt í kringum landið. Veiðar sem héldu áður uppi atvinnu fyrir norðan, austan og vestan yfir sumartímann, sem var einmitt útgerð hinna smærri báta, sem færðu sig til vegna þess kerfis sem þeir voru í, sem var frjálst sóknarkerfi, þ.e. sóknardagakerfi með ákveðnum dagafjölda sem menn fengu að stunda veiðar — menn færðu sig til miðað við fiskigöngur og fylgdu fiskigöngunum og menn sáu þetta gamla munstur sem verið hefur á Íslandsmiðum í 100 ár, hvernig fiskur hagar sér á Íslandsmiðum.

Því miður er það liðin tíð. Örfáar trillur stunda handfæraveiðar í dag og þetta eðlilega munstur veiðiheimilda og fiskigangna er nánast að hverfa vegna þess að við höfum sjálf eyðilagt þá fiskifræði sem þarf sjálfkrafa að koma upp með hegðun fiskimannanna. Því er verr og miður, hæstv. forseti.

Við getum velt því fyrir okkur út á hvað hafa íslenskir útgerðarmenn verið að versla frá 1991–1992 þegar frjálsa framsalið kom inn í kerfið fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins og Þorsteins Pálssonar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina átt einn stærsta þáttinn í því að festa þetta kerfi í sessi og berjast fyrir því alla tíð og reyndar Framsóknarflokkurinn meðan hann var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Menn versluðu út á um það bil 150 þús. tonn af þorski, hæstv. forseti. Ef tekið er meðaltal frá 1992 og fram til dagsins í dag hafa íslenskir útgerðarmenn sætt sig við að kaupa aflann hver af öðrum óveiddan í sjónum miðað við aflahlutdeild út úr 150 þús. tonnum að meðaltali. Hægt væri að færa rök fyrir því að þessi tala væri 165 þús. tonn en þá væru menn með alla byggðakvótana inni og aðra uppbótarkvóta sem verið hafa inni í kerfinu, m.a. vegna þess að menn hafa brugðist við bresti í rækjuveiðum eða hörpuskelsveiðum svo að dæmi séu tekin. Ef þær sérstöku úthlutanir eru teknar út úr þá er um að ræða rúmlega 150 þús. tonn. Það voru íslenskir útgerðarmenn sem bjuggu til leigukerfið, það voru íslenskir útgerðarmenn sem bjuggu til sölukerfið, það voru íslenskir útgerðarmenn sem ákváðu að versla sín á milli fyrir 150 þús. tonn.

Ef okkur tækist svo gæfulega til að breyta þessu kerfi, sem við erum að leggja til, er það algert hámark að íslenskir útgerðarmenn fengju sjálfkrafa tímabundinn nýtingarrétt til einhverra ára sem miðaðist við 150 þús. tonn af þorski. Öll önnur viðbót ætti strax að fara inn á leigumarkað og það ætti að marka forgang þeirra sem hafa verið þjóðnýttir af öðrum útgerðarmönnum undanfarin ár sem leiguliðar, það er ekki hægt að orða það öðruvísi, hæstv. forseti. Það er nánast eins og leiguliðarnir hafi verið í vistarbandi höfðingjanna sem hafa fengið aflaheimildirnar á hverju ári og verið þjóðnýttir af þeim. Ég hef stundum orðað það svo, hæstv. forseti, að leiguliðinn væri arðsamasta einingin í kvótakerfinu, sérstaklega fyrir þá sem eru að leigja þeim heimildir, aðra útgerðarmenn, sem fá þeim úthlutað á hverju ári.

Þetta er sorglegt en einmitt í þessum sjómönnum sem hafa verið að gera út á leigukvótann undanfarin ár hefur falist sá kraftur og dugnaður sem allar atvinnugreinar þurfa á að halda til að fá endurnýjun. Þar hefur iðulega verið að finna kraftmestu sjómennina sem hefðu getað tekið við í íslenskri útgerð ef þeir hefðu getað fengið að keppa á jafnréttisgrundvelli við aðra og hefðu síðar orðið útgerðarmenn framtíðarinnar. Allar atvinnugreinar þurfa endurnýjun. Það þarf að vera innbyggt í kerfið að endurnýjun verði en mönnum sé ekki haldið niðri við sult og seyru eins og gert er í íslenska leigukerfinu með íslenskar aflaheimildir.

Þjóðfélagsþróun í landinu hefur kallað á það að við horfum til þess að afla nýrra tekna. Við í Frjálslynda flokknum leggjum hiklaust til að það myndist nýjar tekjur í gegnum leigu aflaheimilda upp á 10–15 milljarða kr. á ári fyrir íslensku þjóðina. Ekki veitir af eins og nú árar í þjóðfélaginu og það væri mjög eðlilegt að koma slíku fyrirkomulagi á. Þar með væri rekstur venjulegra útgerða tryggður ef tekið yrði tillit til þess að menn greiddu ekki of hátt veiðigjald og íslenska þjóðin ætti auðlindir sínar og fengi fyrir þær afgjald á hverju ári í ríkissjóð sem síðar hjálpar okkur til að halda úti velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. í íslensku þjóðfélagi.

Við horfum fram á mjög alvarlega tíma fyrir íslenska þjóð nú um stundir og við eigum hiklaust að horfa til þess að reyna að finna nýtt fyrirkomulag. Það eru ekki ætlun okkar í Frjálslynda flokknum, sem leggjum þetta mál til, að kollvarpa íslenskri útgerð. En við ætlumst til þess — ef þetta nær fram að ganga, sem væntanlega verður, því að íslenska þjóðin gerir kröfu um að kvótakerfið sé lagt af í núverandi mynd — að þeir sem nýta aflaheimildir og hafa til þess nýtingarrétt nýti heimildir sínar til veiða, keppi á jafnréttisgrundvelli í kerfi til framtíðar sem menn geta verið sáttir við og að í því kerfi séu mannréttindi virt og tryggt að þar geti farið fram eðlileg nýliðun og eðlileg endurnýjun í atvinnugrein eins og ævinlega þarf að verða.

Við erum tilbúnir að rökræða þessa tillögu okkar við hvern sem er. Ég bendi íslenskum útgerðarmönnum á að það voru þeir sem bjuggu til leigukerfið, það voru þeir sem bjuggu til sölukerfið, það voru þeir sem bjuggu til veðsetningarkerfið og það hefur enginn hjálpað þeim við það, þeir hafa gert það sjálfir. Nú ættum við að nota þá fyrirmynd til að komast út úr þessu kerfi en bjóða þeim nýtingarrétt gegn sanngjörnu gjaldi.