136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þingmaður gaf í skyn að ég sé ójafnréttissinnaður, það er afskaplega ósanngjarnt. Ég er jafnréttissinnaður en ekki endilega milli kynja heldur milli fólks. Lýðræðishalli getur myndast við fléttulista þegar hæfara fólkið fær ekki kosningu af því að farið er eftir kynjum.

Það getur líka myndast lýðræðishalli í stjórn Kaupþings þegar hæf kona eða tvær þurfa að yfirgefa stjórnarsætin út af þessu frumvarpi fyrir einhvern karlmann sem er þá væntanlega óhæfari.

Hv. þingmaður kom ekkert inn á það sem ég nefndi í ræðu minni. Ég hélt að hv. þingmaður mundi ræða dálítið umræðuna, um t.d. það að bankarnir eru ohf. og eiga að fara að þeim lögum sem hér er talað um. Það var ekki orð um það. Það var ekki orð um það að þetta gildir nú þegar fyrir þrjá stærstu banka landsins. Ég veit ekki til hvers umræðan er ef framsögumaðurinn tekur ekkert mið af því sem sagt er.

Auðvitað fylgja því gríðarlega mikil völd að vera í stjórnum fjármálafyrirtækja og ég hef oft nefnt það sem mælikvarða á hvort jafnrétti náist að skoða aðalfund Seðlabankans, hversu margar konur eru þar. Ég hef margoft rætt það sem mælikvarða á það hvort jafnrétti hafi náðst. En hvort menn telji það endilega og setji fólk í stjórn bara af því að það er konur, það breytir engu, held ég, ekki nokkrum sköpuðum hlut. (Gripið fram í.) Þetta er nefnilega ekki spurningin um það að ráðherra skipi móður sína, frænku sína, systur sína og dætur inn í stjórnir opinberra fyrirtækja. Það er ekkert meira jafnrétti fyrir það. Það er spurning um að ráða hæfasta fólkið í hvert einasta starf, hæfasta fólkið hvort sem það er karl eða kona. Út á það gengur það. Mitt jafnrétti gengur út á það að hæfasta fólkið fái stöðurnar en ekki endilega bara af því að það er konur eða af því að það er karlar.