136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni, að þeir karlmenn sem hafa skipað stjórnir fjármálafyrirtækja og fyrirtækja á Íslandi hafi almennt verið hæfustu einstaklingarnir, ég stórefast um það. En að þvinga það fram með einhverri jafnréttisáætlun eða talningu á hausum og skipun um að einhver skuli settur í stjórn bara af því hann er kona, það er leið sem mér hugnast ekki. Ég vil heldur að það sé gerð arðsemiskrafa til markaðarins þannig að hann neyðist til að velja hæfasta fólkið hvort sem það er karl eða kona.

Ég þekki það ekki hjá Auður Capital en það getur vel verið að þær konur vilji hafa konur í stjórn en þetta frumvarp mundi gera það að verkum að þær mættu það ekki. Það yrði alla vega að vera þannig að í fimm manna stjórn yrðu að vera a.m.k. tveir karlmenn.

Það er eins með Kaupþing. Ég hugsa að þær konur sem þar sitji séu allar afskaplega hæfar og hafi verið valdar á grundvelli mannkosta. Nú á að fara að setja inn einhverja tvo sem ekki eru valdir á grundvelli mannkosta heldur bara af því þeir eru af ákveðnu kyni.

Fléttulistinn er gott dæmi, við höfum séð sorgleg dæmi um að fólk sem ætti að komast ofar í prófkjörum fellur niður bara af því að það er af tilteknu kyni. Þessi nálgun að telja hausa er því ekki nægilega góð. Menn þurfa að finna út úr því af hverju þetta misrétti er. Af hverju er fjöldi karla og kvenna í atvinnulífinu jafnmismunandi og raun ber vitni? Getur verið að það sé eitthvað sem valdi því eða að það vanti kröfu um arðsemi eða að ákveðnir fordómar séu í gangi í kerfinu? Það skulum við skoða.

En að setja fólk í stjórn bara af því það er af ákveðnu kyni, það er bæði slæmt fyrir viðkomandi einstakling því það munu allir segja: Þú fékkst djobbið bara af því þú er kona eða bara af því þú ert karl, sem er líka slæmt fyrir fyrirtækin sjálf.