136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvernig ég héldi að jafnréttisumræðan eða jafnréttið stæði ef ekki væri allur þessi jafnréttisiðnaður, eins og ég kalla það. Ég varpaði þeirri spurningu til hv. þingmanns hvernig stæði á því að frá kvennafrídeginum mikla hefði staðan í rauninni lítið sem ekkert batnað. Ætla menn ekki að fara að spyrja sjálfa sig hvort þeir séu ekki hugsanlega á rangri braut með því að skikka fyrirtæki til að setja sér einhverjar jafnréttisáætlanir og telja hausa í stjórnum, nefndum og ráðum og slíku í stað þess að reyna að finna út úr því hvað er að? Ég barðist fyrir því fyrir ári að tekin yrði upp jafnréttisvottun, þ.e. að fyrirtækin setji sjálfviljug upp reglur sem eiga að leiða til þess að þau ráði fólk með tilliti til hæfileika en ekki eftir einhverjum öðrum sjónarmiðum, kyni, ætterni eða flokkspólitík eða einhverju slíku.

Það náðist sem betur fer fram og er í vinnslu núna. Ég bind miklu meiri vonir við jafnréttisvottun þar sem fyrirtækið sjálft leggur á sig þá vinnu að ráða fólk eftir hæfileikum. Ég vil ekki tala um eftir kyni, því miður, frú forseti, vegna þess að ég lít svo á að vandamálið sé að fólk er ekki ráðið eftir hæfileikum. Það er afleiðing af vandamálinu, það er hitamælirinn sem sýnir að eitthvað er að sem kemur fram í misrétti kynjanna. En það kemur ekki fram þegar óhæfari karlmaður er ráðinn fram yfir hæfari karlmann eða óhæfari kona er ráðin fram yfir hæfari karlmann eða konu.

Vandamálið er að það er ekki tíðkað að ráða hæfasta fólkið.