136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spyr af hverju ekkert hafi gerst frá kvennafrídeginum 1975. Auðvitað hefur ýmislegt gerst í jafnréttismálum síðan þá, en allt of lítið. Þá er líka ágætt að velta fyrir sér hver ber ábyrgð á því og hverjir hafi stjórnað hér, hvaða ríkisstjórnir hafi verið við völd þann tíma sem hv. þingmaður talar um. Hefur ekki Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað hér meira og minna í 18 ár? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn, ef út í það er farið, ekki stjórnað hér meira og minna í 64 ár? (Gripið fram í.) Hann hefur gert það. Hann hefur ekki verið einráður en hann hefur þó nánast farið með völdin allan þennan tíma og þetta er sá flokkur sem hingað til hefur ekki sýnt mikinn áhuga eða sinnu á jafnréttismálum.

Auðvitað er þetta allt spurning að sýna viljann í verki. Ég fullyrði að fráfarandi ríkisstjórn sem skipuð var þremur körlum af hálfu Samfylkingarinnar og þremur konum — það gaf þeirri ríkisstjórn ákveðna ásýnd og sýndi ákveðinn vilja á meðan ein kona var í ríkisstjórn úr Sjálfstæðisflokknum. Í núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar eru jafnmargar konur og karlar. Þannig á það að vera, það sýnir jafnréttisvilja í verki og það gefur líka þessari ríkisstjórn ákveðna ásýnd. Ég held að umræða innan ríkisstjórnar og í þinginu verði öðruvísi og sé öðruvísi þegar konur taka þátt til jafns við karla í þessari umræðu — ég vona að hv. þingmaður misskilji mig ekki þannig að hann haldi að ég vilji ekki að karlar taki þátt í þessari umræðu — og láta til sín taka. Þá erum við á réttri leið.