136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þann 30. október 2008 sagði ég svo hér á Alþingi, ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr ræðu minni, með leyfi forseta:

„Jöklabréfin ollu líka miklum vanda en það sem kannski olli mesta vandanum var krosseignarhald, áhættutaka banka, ríkissjóðs, fyrirtækja og einstaklinga. Áhættugleðin var höfð í öndvegi. Gamlar dyggðir eins og ráðdeild og sparsemi, öryggi og lítil áhætta voru sem sagt gleymdar.

Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð eins og hv. síðasti ræðumaður. Ég sem þátttakandi í að semja þessi lög sem hafa brugðist ber vissulega ábyrgð á þessari stöðu. Ég ber líka ábyrgð á því að hafa ekki minnt nægilega mikið á þessar gömlu dyggðir og ekki staðið nógu ákveðið gegn því sem ég sá að var afleiðing af gagnkvæmu eignarhaldi. Þannig að ég er ekki að skorast undan ábyrgð, alls ekki.“

Þetta sagði ég 30. október og vísaði til þess að þann 1. mars 2005 hélt ég fund sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar um gagnkvæm eignatengsl í fyrirtækjum og félögum, með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Samtökum fjárfesta, Kauphöll Íslands og Indriða H. Þorlákssyni ríkisskattstjóra. Þar fór ég í gegnum hættuna af gagnkvæmu eignarhaldi og krosseignarhaldi. Þá hélt ég fund 20. september 2007 þar sem efnahags- og skattanefnd, undir forustu minni, heimsótti Seðlabanka Íslands og fór í gegnum jöklabréfin sem ég sá sem mikla hættu í þjóðfélaginu.

En ég skorast ekki undan, alls ekki. Vissulega ber ég ábyrgð, mína ábyrgð. Við tókum upp fullt af reglum frá Evrópusambandinu, auðvitað átti ég að sjá hættuna af Icesave-reikningunum. Þó að enginn annar hefði séð það hjá Evrópusambandinu átti ég að sjá það. Og fleiri þingmenn. Ég skorast ekki undan ábyrgð og ég held að sjálfstæðismenn geri það almennt ekki.