136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:48]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef aldrei skorast undan ábyrgð eins og hér hefur verið haldið fram og aldrei gert neinar tilraunir til þess. Ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan að Sjálfstæðisflokkurinn axlaði sína ábyrgð og gengist fúslega við því að ýmislegt hefði betur mátt fara. Það væri hins vegar óskandi að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka gerðu það líka, eins og t.d. fulltrúar Samfylkingarinnar.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sakaði mig um að vera að reyna að varpa ábyrgð yfir á aðra og yfir á formann Samfylkingarinnar. Samfylkingin og forusta þess flokks ber ábyrgð eins og allir aðrir. Samfylkingin fer í núverandi ríkisstjórn með forustu utanríkismála alveg eins og í síðustu ríkisstjórn. Icesave-skuldbindingarnar og samningar vegna þeirra hafa verið á forræði Samfylkingarinnar. Þar hefur ekkert gerst. Viðskiptaráðuneytið, og þar með málefni bankanna, hafa verið á forsjá Samfylkingarinnar. Bankarnir hrundu á vakt Samfylkingarinnar og því miður hefur Samfylkingunni ekki tekist að endurreisa bankakerfið í sinni tíð í viðskiptaráðuneytinu.

Menn geta talað um Evrópusambandsaðild en ég segi það stoltur að ég vil ekki ganga í Evrópusambandið enda tel ég að við þurfum að byggja samfélag okkar upp á þeim auðlindum sem landið okkar hefur gefið okkur. En nú tekur við uppbyggingarstarf. Við þurfum að slá skjaldborg um heimilin og um atvinnulífið. Við þurfum að endurreisa bankakerfið og koma í veg fyrir skuldasöfnun. Við þurfum að lækka vexti og marka stefnu í gjaldmiðilsmálum. Auka þarf traust en því miður er sú ríkisstjórn sem nú starfar ekki að vinna að þessum málum. Hún hefur einungis fengið eitt frumvarp samþykkt á þeim tíma sem hún hefur verið við völd.