136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[13:55]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hófst á því að spurt var um ábyrgð þingmanna, kjörinna fulltrúa á þingi. Ég talaði þar út frá mínu hjarta eins og ég hef hugsað mína ábyrgð í þessu máli.

Ég tek undir það með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skorast undan ábyrgð sinni. Einstakir þingmenn og stjórnmálamenn á okkar vegum hafa orðað þetta með svipuðum hætti og ég þannig að heyrst hefur. En ég spurði m.a. í ræðu minni um ábyrgð Samfylkingarinnar og benti á að hún vísaði yfirleitt á aðra. Það er þetta gamla: Ekki benda á mig. Það var mjög áberandi í ræðu bæði hv. þm. Árna Páls Árnasonar og hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að þau eru við sama heygarðshornið, þau benda á alla aðra en sjálfa sig. Þau sjá ekki í sinn eigin rann að þau beri einhverja ábyrgð.

Ég verð að draga það fram að margir hafa bent á að rót hrunsins liggi m.a. í því regluverki um fjármálakerfið sem við höfum innleitt í íslensk lög. Hvaðan er það regluverk komið? Það er komið frá EES-samningnum. Þar bera forverar Samfylkingarinnar ábyrgð, Alþýðuflokkurinn gamli, sem var í fjögur ár af þessum 18, 4 ár plús Samfylkingin í 18 mánuði, þannig að það er ákveðinn hluti af þessu. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið vör við annað en að Samfylkingin vilji ganga enn lengra í að róa að því öllum árum að Ísland gangi í ESB og gangi enn lengra inn í það regluverk sem er rótin að því í hvaða stöðu við erum í dag.