136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

efnahagshrunið og pólitísk ábyrgð.

[14:00]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að segja hv. þm. Pétri Blöndal að ég er félagshyggjumaður og ég trúi á samstöðu fólks. Ég hef trú á því að fólk megi taka sig saman rétt eins og bændur mega fara í réttir saman og ræða sín mál. Það er það sem iðnaðurinn og allar hreyfingar á Íslandi gera til að ná fram sameiginlegum málum, hagsmunamálum sínum, að taka sig saman.

Já, ég hef verið baráttumaður fyrir mannréttindum, og ég minnist þess, hv. þm. Pétur Blöndal, að ég barðist harkalega vegna brota á stjórnarskránni í tengslum við breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem hefur nú verið dæmt í héraðsdómi að séu mannréttindabrot. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi stutt þau mál svo að hann talar úr tómri tunnu hér og bergmálar allt aðra væntumþykju fyrir stjórnarskránni en orð hans mæla fyrir um.

Ég hef ekki rætt þetta innan þingflokks Vinstri grænna, ég bíð þessarar niðurstöðu. Ég bíð og vona að menn megi vinna saman, vera samhentir, sýna samábyrgð. Að við hverfum frá þeirri einstaklingshyggju og gróðahyggju sem hefur gegnsýrt þjóðfélag okkar allt frá árinu 1991 þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda, þar sem óbeisluð frjálshyggja hefur ráðið för, þar sem frelsi var einkavætt, hv. þm. Pétur H. Blöndal, en ekki ábyrgðin. Mönnum gerist nú tíðrætt um ábyrgð og ég held að menn ættu að hugsa sig betur um og biðja þjóðina afsökunar almennt séð og vinda sér svo í þau verk sem eru brýnust fyrir þjóðina, þ.e. að leysa vanda heimilanna og atvinnulífsins.