136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi opinberu hlutafélögin. Það er mjög skýrt og ákveðið í þeim lögum að hlutafélög sem eru alfarið í eigu opinberra aðila, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, teljast opinber hlutafélög. Þau eiga að fara að lögum um opinber hlutafélög þar á meðal um kynjaskiptingu í stjórn, um aðgang kjörinna fulltrúa að aðalfundum og fjölmiðla á aðalfund. Ég vil því gjarnan að ráðuneytið skoði þetta nánar.

Krosseignarhaldið er mikið vandamál. Það vill svo til að ég er nú að leggja fram tillögu til þingsályktunar um gagnsæi hlutafélaga sem er nýtt hugtak sem er skilgreint „recursive“, svo ég sletti nú ensku, þ.e. að það er skilgreint gagnkvæmt og felst í því að gagnsætt hlutafélag má eingöngu fjárfesta í gagnsæjum hlutafélögum og má eingöngu veita arð og atkvæðisrétt til eigenda sem eru gagnsæ hlutafélög eða einstaklinga.

Ég tel að með þeim hætti væri hægt að skilgreina nýtt form hlutafélaga sem menn mundu treysta miklu frekar, bæði fjárfestar og sérstaklega lánardrottnar sem hafa farið mjög illa út úr því krosseignarhaldi og raðeignarhaldi sem hefur verið við lýði hér á landi og blæða sennilega mest fyrir það. Það hefur að sjálfsögðu leitt til þess vantrausts sem nú ríkir. Ég held að menn ættu að skoða það nákvæmar að búa til nýtt hugtak sem heitir „gagnsætt hlutafélag“.