136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var að mörgu leyti merkileg ræða hjá hv. þingmanni og það er athyglisvert að verða hér aftur og aftur vitni að þeim hamskiptum sem Sjálfstæðisflokkurinn nú gengur í gegnum. (PHB: Hann er í stjórnarandstöðu.) Hann er kominn í stjórnarandstöðu, segir hv. þm. Pétur Blöndal, það er gott og það er greinilegt og ég óska þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði þar sem allra lengst vegna þess að þar á hann heima.

Það er athyglisvert að hlusta á það sagt hér að eftir einn mánuð hafi sú ríkisstjórn sem hér situr sett mjög fá mál inn í þingið. Ég vek athygli á því að þau eru 16, þar af níu sem varða verkefnaskrá ríkisstjórnarflokkanna beint. Það er rétt að aðeins eitt mál hefur orðið að lögum, margfrægt mál um Seðlabankann, og það er eftirtektarvert að það var þrjár vikur í nefnd og tók afskaplega mikla vinnu og eina 10 fundi.

Ég ætla rétt að vona að þau orð sem hv. þingmaður viðhafði áðan um að þau mál sem hér eru á dagskrá í dag, þrjú mál frá hæstv. viðskiptaráðherra, eigi ekki að taka jafnlangan tíma í nefnd séu ekki illa meint. Ég verð að segja að þetta eru sjálfsögð mál sem varða mjög mikilvægar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir annað hrun í efnahagslífi okkar, gegnsæi, að menn viti hver á hvað og hver hefur atkvæðisrétt. Þetta er stórt skref í rétta átt hvað varðar kynjahlutfallið og ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að konur og karlar komi að borðum þar sem ákvarðanir eru teknar. Það er líka mjög mikilvægt að taka af þann séríslenska ósið að hafa hér starfandi stjórnarformenn.

Hér eru á ferð mikilvæg mál sem hv. þingmaður ætti ekki að gera lítið úr og ég treysti því að mér hafi misheyrst varðandi tóninn í máli hennar og að hún muni leggja sitt lið til þess í hv. viðskiptanefnd að málið verði þar afgreitt hratt og örugglega.