136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að minna hv. þingmann á að nú þegar eru í þinginu nokkuð mörg mál sem snerta beint aðstoð við heimilin í landinu, við þá sem eru nú að sligast undan skuldaklafanum sem útrásarvíkingarnir og vanhæf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í ein 18 ár skilja eftir sig á herðum þjóðarinnar.

Ég nefni mál nr. 281, gjaldþrotaskipti, greiðsluaðlögun, sem nú er á síðustu metrunum í allsherjarnefnd. Ég nefni mál nr. 322, um aðför, nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti (bætta stöðu skuldara), sem við erum að byrja að skoða, því var vísað til nefndar 19. síðasta mánaðar. Ég nefni virðisaukaskattinn af húsbyggingum sem var afgreiddur út úr efnahags- og skattanefnd í morgun. Ég nefni eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, sem svo sannarlega, þó að þau snerti kannski ekki beint heimilin í landinu sem slík nema heimili þeirra sem í þeim hópum eru, eru mikilvægt skref í því að jafna kjör í þessu landi. Loks nefni ég skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þ.e. séreignarsparnaðinn sem er einnig langt kominn í nefnd.

Þau þrjú mál sem hér verða til umræðu í dag munu væntanlega fara í viðskiptanefnd og eins og ég sagði áðan lúta þau að því að auka gegnsæi og veita einhverjar tryggingar og varnir fyrir því að við lendum ekki aftur í sömu súpunni.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að við þurfum að taka hér til umræðu tillögur Mats Josefssons og þeirrar nefndar sem hann stýrir og ég efast ekki um að við fáum tækifæri til þess, bæði hér í þinginu og í hv. viðskiptanefnd.