136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem komu áðan fram í máli hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur. Við erum með þrjú efnisatriði í þessu frumvarpi og ég er sammála því að öll eru þau þess eðlis að mikilvægt er að taka þau til umræðu. Varðandi gagnsæi segi ég að atburðir liðanna mánaða og raunar missira sýna okkur að við þurfum að leita leiða til að auka gagnsæi í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að tryggja að fjárfestar og aðrir sem starfa á markaði og fylgjast með honum eigi auðveldara með að átta sig á því hvar eignarhaldið liggur. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Varðandi starfandi stjórnarformenn þekkjum við það auðvitað frá umliðnum árum að skiptar skoðanir hafa verið um þann þátt. Þegar nefndarstarf var um þetta atriði fyrir nokkrum árum komu fram mjög skiptar skoðanir og sneru bæði að því hvort þarna væri raunverulega um vandamál að ræða og eins hvort það væri rétt að ganga svo langt að banna stjórnarformönnum að vera í fullu starfi í sínu verkefni. Ég held hins vegar að sú hugmynd sem hér liggur fyrir sé vel þess virði að ræða hana. Fyrir henni eru ákveðin rök eins og hæstv. viðskiptaráðherra rakti í sambandi við eftirlitsskyldu stjórnar og þess háttar sem er auðvitað mikilvægt og liður í því sem segir í greinargerð með frumvarpinu, að bregðast við því að auka trúverðugleika í starfsemi fyrirtækja í landinu og tryggja að það eftirlitsfyrirkomulag sem er fyrir hendi í félögum virki. Eftirlit stjórnar með störfum forstjóra og framkvæmdastjóra skiptir auðvitað máli í því sambandi þannig að ég tek undir að það er full ástæða til að ræða þetta mál og ég fagna því í sjálfu sér að frumvarpið er komið fram til að við fáum tækifæri til þess í nefndinni.

Varðandi kynjahlutföllin í stjórn get ég sagt sem svo að vitaskuld er ég fylgjandi því að kynjahlutföll í stjórnum félaga séu sem jöfnust eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Það er jákvætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Ég verð hins vegar fyrir fram að setja ákveðinn fyrirvara við allar þvingandi aðgerðir í því sambandi. Ég held að við eigum að fara varlega í slíkt, en varðandi upplýsingaskyldu og annað sem er fjallað um í frumvarpinu held ég að það hljóti að koma vel til greina.

Ég fagna sem sagt framkomu þessa frumvarps og tel að í því séu mjög margir þættir sem vert er að skoða og eftir atvikum samþykkja. Í tilefni af umræðum sem áttu sér stað áðan í andsvörum milli hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur og Álfheiðar Ingadóttur get ég alveg tekið undir með hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur að hér er ekki um að ræða bráðaaðgerðir vegna þess efnahagsvanda sem nú steðjar að fyrirtækjum og heimilum. Þetta snýr að því hvernig við ætlum að haga framtíðaruppbyggingu atvinnulífsins sem skiptir verulegu máli en þetta er ekki þannig að það leysi neinn vanda sem snýr að fyrirtækjunum eða heimilunum í dag.