136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[15:17]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um það mál sem er á dagskrá og út af þessum orðaskiptum sem fóru hérna fram síðast. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að skiptin kosti. Þá getum við sagt í framhaldinu að lýðræðið kostar. Það er nokkuð sem öllum er kunnugt um.

Ég vil lýsa yfir ánægju með þetta frumvarp. Ég get sagt að ýmsir gamlir kunningjar koma þarna fram og kannski hefði sú sem hér stendur átt að standa sig betur í því að vera búin að leggja fram áþekk frumvörp á sínum tíma, að minnsta kosti hvað varðar suma þætti þessa máls. En ég er að minnsta kosti ánægð með að hæstv. viðskiptaráðherra er kominn hér fram með frumvarp sem varðar til dæmis starfandi stjórnarformenn sem, eins og hann lét kom fram í sínu máli, ekki var tekið á í lögum í framhaldi af nefndarstarfi sem átti sér stað á sínum tíma undir minni forustu sem viðskiptaráðherra. Hann var formaður í þeirri nefnd sem skilaði ágætisskýrslu og meðal annars var þar lagt til að tekið væri á þessu máli sem var ekki gert og náðist ekki samstaða um. Fer ég ekkert frekar út í það hér. En nú er þetta komið fram hér í frumvarpi og mér heyrist að það sé allgóð samstaða um að láta það verða að lögum.

Síðan er það þetta margumtalaða mál sem varðar kynjahlutföll og þá dapurlegu stöðu sem hefur verið í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga á Íslandi, þ.e. hvað það hafa verið fáar konur. Það var líka mál sem ég ætlaði að reyna að ná einhverjum árangri í á sínum tíma og skipaði nefnd sem kölluð var tækifærisnefndin vegna þess að það var skoðun í þeirri nefnd að það ætti að líta á það sem tækifæri fyrir viðskiptalífið að nýta betur þá auðlind sem býr í þekkingu kvenna og að það væri jákvætt fyrir viðskiptalífið að konur tækju meiri þátt í stjórn þess. En satt að segja náðist ákaflega lítill árangur í framhaldi af því nefndarstarfi. Þá kom upp mjög sterklega sú umræða hvort rétt væri að setja lög á Íslandi eins og hafði verið gert í Noregi sem skipuðu fyrir um að ólöglegt væri að hafa stjórnir með þeim hætti sem er í langflestum félögum í dag.

Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi jafnréttisvottun sem hann hefði viljað að yrði komið á. Í framhaldi af því vil ég segja að það starf sem nú þegar er innt af hendi í tengslum við Háskólann á Bifröst er í reynd í þá átt. Það kallast jafnréttiskennitala. Viðskiptaráðuneytið, Jafnréttisstofa og skólinn hafa tekið þátt í því og jafnvel fleiri aðilar að reyna að ná árangri með upplýsingagjöf og rannsóknum. Reyndar hef ég ekki heyrt alveg nýlega af því hvar það mál stendur núna. En alla vega er, að ég best veit, þetta starf enn þá í gangi. Eitt er að veita upplýsingar og annað er að þeir sem stjórna för geri svo eitthvað með þær upplýsingar. Þannig hefur það verið því miður voða mikið fram að þessu að það hefur ekki verið gert þó vissulega hafi borið nýtt við þegar svo fór að bankaráð í einum banka er eingöngu skipað konum sem er náttúrlega alger nýjung hér á landi.

Í þessu frumvarpi er reyndar ekki kveðið á um skyldur í þessu sambandi heldur að gæta skuli að hlutfalli kynja og svo framvegis. Á þessari stundu þori ég því ekki að vera of bjartsýn á að þetta beri mikinn árangur. En við skulum vona að gott á viti.

Í tengslum við þetta kem ég líka inn á það sem áður hefur verið nefnt hérna í umræðunni og það varðar opinber hlutafélög. Ég spurði fyrrverandi fjármálaráðherra að því stuttu eftir bankafallið hvort það væri ekki augljóst að bankarnir væru opinber hlutafélög. Hann kvað svo ekki vera. En kannski er það vegna þess að í raun eru þeir ekki almennilega orðnir til þessir nýju bankar sem við erum þó að tala um í dag. Þetta er eitt af því sem ég vildi gjarnan fá frekari skýringar á hjá hæstv. ráðherra hvort sem það verður núna eða síðar.

Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir talaði um að skynsamlegra og mikilvægara hefði verið að leggja fram frumvarp sem kvæði á um að bankarnir yrðu starfhæfir. Það er mikið rétt að auðvitað bíðum við öll eftir því að bankarnir geti sinnt sínu hlutverki. Svo er er ekki í dag. Þar kemur náttúrlega margt til. Ég efast ekki um að hæstv. viðskiptaráðherra sé alla daga að vinna að þeim málum. En það tengist líka því að við erum með ónothæfan gjaldmiðil í landinu. Í raun er íslenska krónan bara bundin við bryggju og enginn veit hvers virði hún er. Á meðan svo er þá óttast ég að ekki sé þægilegt að gera efnahagsreikninga fyrir þessa banka, hvorki gamla né nýja. Þetta er höfuðvandamálið sem við stöndum frammi fyrir og því miður of margir skella skollaeyrum við, þ.e. hið stórkostlega vandamál sem varðar okkar gjaldmiðil.

Þetta er nú ekki hér beint til umfjöllunar, hæstv. forseti. Það er kannski til merkis um það hvað þessir hlutir hafa verið fljótir að breytast á Íslandi að þegar ég kom í viðskiptaráðuneytið — það var líklega árið 2000 — þá var verið að vinna að mikilli skýrslu eða var í framhaldi af því unnin skýrsla um eignatengsl í íslensku viðskiptalífi. Það var að beiðni Samfylkingarinnar sem sú skýrsla var unnin. Hún fjallaði nánast eingöngu um kolkrabbann og hvernig eignatengsl ættu sér stað þar þó kolkrabbinn væri nú aldrei nefndur á nafn í skýrslunni. Síðan þá hafa hlutir gerst á okkar fjármálamarkaði sem gera gamla kolkrabbann ósköp lítilfjörlegan í rauninni og gleymdan. Þessi þróun hefur náttúrlega verið með eindæmum og endaði með því mikla falli sem allir kannast við og hefur verið rætt mikið um á hv. Alþingi og síðast nú í upphafi þessa fundar.

En ég get tekið undir það með hv. formanni viðskiptanefndar að þegar við fjöllum um þessi mál núna þá setja flestir upp önnur gleraugu því við erum að horfa á hlutina með öðrum augum en gert var á meðan að allir héldu að peningarnir yxu á trjánum og þeir yrðu til í þessu gríðarlega magni endalaust. Að minnsta kosti trúðu ýmsir því. En það fór á annan veg og við erum að súpa seyðið af því.

Ég vil líka taka það fram, hæstv. forseti, ef ég má í tengslum við þetta mál að ég styð líka þau mál sem hæstv. viðskiptaráðherra mun mæla hér fyrir á eftir. En ég þarf að bregða mér frá þannig að ég get ekki tekið þátt í þeirri umræðu.