136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[15:42]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

  Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn, mál nr. 359 á þskj. 610.

Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við ákvæðum um niðurfellingu í lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003, lög um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, lög um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005, lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, og lög um kauphallir, nr. 110/2007.

Með niðurfellingu er átt við að viðurlög eru milduð eða felld niður að fullu þegar lögaðili eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila við rannsókn málsins. Reglum sem þessum hefur hingað til verið beitt með góðum árangri á sviði samkeppnisréttar og verið taldar mjög mikilvægar við að upplýsa um ólögmætt samráð. Þá er í nýlegum lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, að finna ákvæði um niðurfellingu.

Hvað varðar niðurfellingarreglur á fjármálamarkaði hafa ekki fundist nein fordæmi fyrir slíkum reglum erlendis. Það er hins vegar afar mikilvægt að aðilar á fjármálamarkaði fari að settum reglum og að upp komist um brot á ákvæðum laga sem allra fyrst enda oft um mikla hagsmuni að ræða. Þrátt fyrir að aðstæður séu með nokkuð öðrum hætti en í samkeppnisrétti verður að telja líklegt að tilvist niðurfellingarreglna í löggjöf er varðar fjármálamarkaðinn hvetji lögaðila og einstaklinga til að gefa sig fram til að upplýsa um brot. Það er því tilefni til að ætla að niðurfellingarreglur verði til þess að brot á ákvæðum laga er varða fjármálamarkaðinn upplýsist fyrr og betur.

Í frumvarpinu er lagt til að í lög er varða fjármálamarkaðinn verði sett ákvæði er heimila Fjármálaeftirlitinu í fyrsta lagi að falla frá sektarákvörðun ef fyrirtæki eða einstaklingur er fyrstur til að koma fram með upplýsingar eða gögn sem að mati eftirlitsins geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti. Hér er lögð til sama leið og farin er í samkeppnisréttinum, þ.e. að veita aðila eingöngu algjöra niðurfellingu sekta ef hann er fyrstur til að koma fram með upplýsingar en það hefur sýnt sig í samkeppnisréttinum að það er mjög mikilvægt fyrir virkni niðurfellingarreglna að þeir sem eru fyrstir til að gefa sig fram eigi möguleika á bestu niðurstöðunni.

Í öðru lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að lækka sektir ef fyrirtæki eða einstaklingur hefur frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn sem að mati eftirlitsins eru mikilvæg viðbót við þau gögn sem það hefur þegar í fórum sínum. Einstaklingar eða lögaðilar eiga því möguleika á að fá niðurfellingu hvort sem rannsókn á broti þeirra er hafin eða ekki ef þeir sjálfviljugir og að fyrra bragði ákveða að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn. Almenn samvinna einstaklings eða lögaðila vegna rannsóknar eftirlitsins dugar ekki til þess að fá niðurfellingu.

Samkvæmt núgildandi lögum á fjármálamarkaði ber Fjármálaeftirlitinu að kæra meiri háttar brot til lögreglu. Því er í þriðja lagi lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn telji eftirlitið að gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við þau gögn sem það hefur þegar í fórum sínum.

Að lokum er lagt til að í lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, verði bætt tilvísun til þess að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til þess í sérlögum að falla frá sektarákvörðun eða kæru til lögreglu ákveði eftirlitið að veita aðila niðurfellingu.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.