136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

bókhald.

244. mál
[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Töluverðar breytingar voru þá gerðar á áður gildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina. Meginbreytingar þær sem hér eru lagðar til leiða af því að breyta núverandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu.

Til viðbótar er lagt til í frumvarpinu að heimild félaganna að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku í stað íslensku verði víkkuð út til annarra félaga en þeirra sem hafa heimild til að hafa reikningsskilin í erlendum gjaldmiðli. Vaxandi tilhneigingar félaga til að hafa texta ársreiknings á ensku kemur einkum af því að um erlenda eignaraðild og/eða stjórnaraðild er að ræða.

Reynslan sýnir að fjöldi félaga hafa ársreikninga sína á ensku þrátt fyrir að vera með reikningsskilin í íslenskum krónum og ekkert samband er á milli þess að færa bókhaldið í erlendum eða innlendum gjaldmiðli og texta bókhaldsins. Einnig er lögð til almenn heimild til að staðsetning bókhaldsgagna geti verið erlendis í allt að sex mánuði og ekki bundin færslu þess í erlendum gjaldmiðli. Benda má á að rafrænt fært bókhald er að verða algengara og er þá alltaf óheftur aðgangur að rafrænum bókhaldsgögnum án tillits til þess hvar bókhald er vistað í heiminum. Tekið er þó fram að það verði að vera eðlilegar forsendur fyrir þessum frávikum, t.d. að um erlenda eignaraðila sé að ræða svo og að stjórnaraðild erlendra manna eigi við þegar textinn er ekki á íslensku.

Frumvarp það sem ég mæli fyrir var lagt fram á Alþingi í desember sl. en ekki náðist að mæla fyrir því á haustþingi. Má því segja að þetta sé erfðagóss frá forvera mínum sem ekki hefur unnist tími til að mæla fyrir á þingi fyrr en nú. Með vísan til þess að frumvarpið var ekki afgreitt sem lög á síðasta haustþingi er lagt til að gildistökuákvæði þess verði tekið til endurskoðunar í efnahags- og skattanefnd.

Að auki er rétt að vekja athygli á því að á undanförnum vikum hefur ríkisstjórnin unnið að því að auka upplýsingaskyldu félaga hvað varðar eignarhald þeirra og á Alþingi var rætt frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra þar að lútandi. Sérfræðingar fjármálaráðuneytisins hafa tekið þátt í þeirri vinnu og er því lagt til að samspil þess frumvarps við það frumvarp sem ég mæli fyrir verði skoðað í efnahags- og skattanefnd til að tryggja fullt samræmi.

Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni umræðu.