136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[15:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum, á þskj. 613.

Meginforsendur breytinganna eru þær að lögfesta heimild Umhverfisstofnunar til að halda námskeið í landvörslu á náttúruverndarsvæðum og kveða á um helstu skilyrði til að menn geti öðlast rétt til að starfa sem landverðir á náttúruverndarsvæðum, svo og tryggja lagaheimild til gjaldtöku vegna þess kostnaðar er hlýst af námskeiði og prófi til landvörslu.

Í kjölfar þess að Vatnajökulsþjóðgarði var komið á fót árið 2008 fjölgaði stöðugildum landvarða talsvert og er tilgangur frumvarpsins því líka sá að bregðast við aukinni eftirspurn eftir landvörðum, en brýnt er að þeir þekki vel og kunni til starfa á þeim vettvangi. Má þar nefna öryggismál, lög og reglur um friðlýst svæði og umhverfismál almennt, samskipti og fræðslu gagnvart gestum á náttúruverndarsvæðum o.fl.

Mikilvægt þykir að atriðum eins og þeim sem kveðið er á um í frumvarpinu, einkum rétti eða möguleikum varðandi atvinnu manna og gjaldheimtu vegna náms í því sambandi, sé skipað með lögum í samræmi við viðtekin sjónarmið. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Umhverfisstofnun sem einnig taldi brýnt að gera breytingar þær sem mælt er fyrir um í frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Í fljótu bragði man ég eftir tvennum lögum sem heyra undir umhverfisráðuneytið þar sem kveðið er á um menntunarskilyrði þeirra sem starfa á vegum stofnana ráðuneytisins. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eru ákvæði sem varða skyldur og menntunarkröfur til heilbrigðisfulltrúa. Kannski má segja að málum af þessu toga ætti að koma fyrir undir hatti menntamála, en engu að síður er ljóst að víða er í lögum að finna ákvæði sem varða sértækar og afmarkaðar heimildir stofnana til að sérmennta fólk til mjög sérhæfðra starfa. Þau störf sem ég hef nefnt eru einmitt þess konar störf.

Innan ráðuneytis umhverfismála starfar nefnd sem fjallar sérstaklega um menntunarkröfur sem gerðar eru til heilbrigðisfulltrúa eins og ég nefndi áðan. Ég tel eðlilegt að við skoðum þessi mál í víðu samhengi og þess vegna mætti skoða hvernig sú heimild Umhverfisstofnunar sem hér er mælt fyrir um að fái lagastoð verði nýtt af stofnuninni. Við gerum ráð fyrir að umhverfisnefnd fari vel yfir þau mál og velti fyrir sér hvort þessi skipan mála sé sú sem við viljum búa við til frambúðar eða hvort hægt væri að fara aðrar leiðir í þessum efnum.

Sú reglugerð sem unnið hefur verið eftir hvað þetta varðar hingað til er löngu orðin úrelt. Hún er sett árið 1990, undirrituð í menntamálaráðuneytinu 26. janúar. Hún ber keim af því umhverfi sem við störfuðum við þá. Þá var Náttúruverndarráð við lýði og landverðir heyrðu undir Náttúruverndarráð og það látið kanna hvort kröfurnar sem gerðar voru til landvarða væru nægar og hvort að viðkomandi þyrfti þá á einhverri sérstakri menntun að halda.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu kemur fram að undanfarið hafi milli 15 og 20 manns sótt landvarðanámskeið Umhverfisstofnunar á ári hverju og hefur stofnunin innheimt gjald fyrir námskeiðin en tekjur af gjaldinu hafa ekki staðið undir kostnaði. Kostnaður við námskeiðin hefur verið um 1,5 millj. kr. á ári en tekjurnar um 1 millj. kr. Út af hefur staðið um 500 þús. kr. kostnaður sem Umhverfisstofnun hefur þurft að bera.

Nauðsynlegt er að í lögum séu heimildir til gjaldtöku af þessu tagi. Slíkt hefur ekki verið til staðar í lögum hingað til. Þetta hefur einungis verið gert með reglugerðarákvæðum eins og ég nefndi áðan. Ég tel því mjög mikilvægt að gjaldtökuheimildin fái stoð í lögum og tel því óhjákvæmilegt að sá þáttur 1. gr. frumvarpsins hljóti lagastoð hið fyrsta og fari í gegnum Alþingi sem lög.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.