136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

iðnaðarmálagjald.

357. mál
[16:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á því gjaldi sem forseti nefndi hér rétt áðan, iðnaðarmálagjaldi. Þetta eru lög nr. 134/1994.

Í þessu frumvarpi er einungis ein breyting lögð er til og hún er af tæknilegum toga. Lagt er til að nýr staðall, atvinnugreinaflokkun ÍSAT 2008, verði hér eftir notaður við að afmarka þá aðila sem eru gjaldskyldir gagnvart iðnaðarmálagjaldinu í stað eldri atvinnugreinaflokkunar ÍSAT 95. Þessi nýja flokkun er byggð á nýrri atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins sem hefur gilt í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins frá 1. janúar 2008. Það ber að undirstrika alveg sérstaklega að frá sama tíma hefur nýja flokkunin einnig verið notuð hér á landi af hálfu ríkisskattstjóra og í opinberri gerð hagskýrslna Hagstofu Íslands. Þessi nýja atvinnugreinaflokkun verður jafnframt notuð við álagningu opinberra gjalda árið 2009 vegna tekna ársins 2008. Það er lögbundið samkvæmt EES-samningnum að gildistaka þetta nýja flokkunarkerfi. Hér er um að ræða samræmt kerfi sem er notað við hagskýrslugerð á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég tek skýrt fram, frú forseti, að með frumvarpinu eru ekki lagðar til neinar efnislegar breytingar á lögum um iðnaðarmálagjald. Afmörkun gjaldskyldu verður sú sama og áður og algjörlega óbreytt hvaða atvinnustarfsemi er gjaldskyld. Ég vek líka eftirtekt á því að sambærilega tæknilega breytingu varð að gera á lögum um búnaðarmálagjald vegna þessarar nýju atvinnugreinaflokkunar sem ég reifaði hér fyrr í máli mínu og sú breyting var samþykkt á Alþingi þann 12. desember með lögum nr. 145/2008 þannig að hér er verið að leggja til breytingu á iðnaðarmálagjaldi til samræmis við það.

Ég mælist til þess, frú forseti, að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnaðarnefndar.