136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

360. mál
[16:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem er 360. mál. Með henni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í hann reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð nr. 2096/2005.

Ég get þess fyrir áhugasama þingmenn sem hlýða á mál mitt að með rekstrarstjórnun flugumferðar er átt við flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar. Hið síðarnefnda, sem á enskri tungu heitir „Air Traffic Flow Management“, er þjónusta sem er veitt með það að markmiði að stuðla að öruggu, skipulegu og sem hröðustu flæði flugumferðar þannig að tryggja megi að geta flugumferðarstjórnar sé nýtt til hins ýtrasta og sömuleiðis að umfang flugumferðar sé í samræmi við þá þjónustu sem viðeigandi veitendur flugumferðar hafa gefið upp.

Í tillögunni er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar og hún prentuð sem fylgiskjal, ásamt þeirri reglugerð sem hér um ræðir. Fyrri reglugerðin sem ég gat um fjallar um eftirlitsskyldur þess sem hefur verið tilnefndur til eftirlits með þeim sem hafa starfsleyfi á sviði flugleiðsöguþjónustu. Hin síðari er svo innleidd í íslenskan rétt með reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu. Sá aðili sem annast þetta eftirlit af Íslands hálfu er Flugmálastjórn Íslands. Reglugerðin snertir fyrst og fremst starfsemi Flugstoða ohf. sem er sá aðili sem samkvæmt reglugerð er tilnefndur til að veita þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar, sem sagt starfsemi Flugmálastjórnar sem veitir eftirlit með slíkri þjónustu.

Áhrif breytingarinnar eru fyrst þau að eftirlitshlutverk Flugmálastjórnar er aukið til muna og það mun taka til nýrra þátta, þ.e. þeirra tveggja sem ég gat um hér áðan, flæðisstýringar og loftrýmisstjórnunar. Loftrýmisstjórnunin sjálf er veitt af Flugstoðum ohf. Rétt er að geta þess að eftirlit af þessu tagi, þ.e. með flugleiðsöguþjónustu, er nýtt af nálinni þar sem það hófst aðeins hér á landi stuttu fyrir uppskiptingu Flugmálastjórnar Íslands og stofnun hins nýja opinbera hlutafélags Flugstoða ohf. sem varð til þann 1. janúar 2007. Nánari grein fyrir þeim lagabreytingum sem eru nauðsynlegar er að finna í greinargerð með tillögunni og frumvarp þar að lútandi er þegar til meðferðar hér á Alþingi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.