136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um frumvarp til breytinga á lögum nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Samstaða er um málið í nefndinni.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og enn fremur frá hagsmunaaðilum og leitað umsagna frá þeim.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem heimilar ráðherra að úthluta tilteknum aflaheimildum til áframeldis þorsks og hins vegar að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í sömu lögum um frest aðila til að ráðstafa krókaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan tiltekinna marka sem sett eru í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna.

Á fundum nefndarinnar voru ræddar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Nefndin fjallaði um úthlutun þorskeldiskvóta og er sammála um mikilvægi þess að styðja við tilraunir með eldi á sjávarfiski, enda séu væntingar gerðar til slíks eldis til lengri tíma litið auk þess sem gert er ráð fyrir að innan fárra ára muni kynbótastarfsemi leiða til þess að hægt verði að leggja af úthlutun þorskeldiskvóta og byggja eingöngu á eldisseiðum. Nefndin styður því að ráðherra verði heimilt að úthluta þorskeldiskvóta til fiskveiðiársins 2014/2015.

Vegna 2. gr. frumvarpsins vekur nefndin athygli á að aðilum sem eru með krókaaflahlutdeild sem ekki rúmaðist innan settra marka var fyrst gefinn þriggja ára frestur, við setningu laga nr. 42/2006, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, til að gera ráðstafanir til að hlutdeild þeirra væri innan marka. Þessir aðilar hafa haft rúman tíma til að bregðast við breyttu lagaumhverfi og telur nefndin því ekki ástæðu til að víkja lengur frá ákvæðum laganna með því að framlengja frestinn um þrjú ár til viðbótar. Nefndin telur þó rétt í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífi þjóðarinnar um þessar mundir að frestur skv. 2. gr. frumvarpsins verði eitt ár.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „1. september 2012“ í 2. gr. kemur: 1. september 2010.“

Hv. þm. Karl V. Matthíasson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. En undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Helgi Hjörvar, Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Herdís Þórðardóttir og Grétar Mar Jónsson.

Ég óska eftir því að málinu verði vísað til 3. umr.