136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[16:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi aldrei að ég mundi ganga í Lífeyrissjóð bænda heldur sagði ég að ég ætti mestöll mín réttindi hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, svo að rétt sé rétt.

En varðandi það að ég hafi séð ljósið 2003 þá greiddi ég atkvæði með því frumvarpi vegna þess að þar áður voru réttindin afskaplega ruglingsleg. Þau voru stöðluð með því frumvarpi og fyrir hinn almenna þingmann var þetta ekki kjarabót. Lögin frá 2003 voru ekki þingmönnum til góða, iðgjaldið var hækkað og réttindin eilítið bætt, en það stóð á endum. Ég greiddi atkvæði með því vegna þess að þetta var stöðlun sem gerði það auðveldara að breyta núna.

Hv. þingmaður tiplar eins og köttur í kringum heitan graut þegar hann talar um verkalýðshreyfinguna og völd hennar yfir lífeyrissjóðunum. Ég þarf ekkert að tipla í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut. Ég segi bara: Þetta er ekki hægt. Fólk á að geta kosið stjórnir lífeyrissjóðanna, fólk á að geta kosið þá menn og þær konur sem fara með það fé sem mestu varðar fyrir fólk. Ég þarf ekki að tipla í kringum þetta.

Varðandi vildarpunktana þá er það ekki þannig að Jóhann Ársælsson hafi einn rætt um þá. Ég hef rætt þetta endurtekið. Vildarpunktarnir skekkja alla samkeppni, eyðileggja hana í rauninni. Flugfélag sem veitir vildarpunkta — miðinn er keyptur þó að hann sé miklu dýrari af því að atvinnugreiðandinn greiðir en launþeginn, notandinn, nýtur. Þetta er afskaplega ósiðlegt og ég hef ekki getað tekið þátt í þessu hingað til vegna þess að mér finnst það ósiðlegt. En auðvitað græðir flugfélagið bara á því að ég hef aldrei notað vildarpunkta. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann notað vildarpunkta? Mér finnst það ósiðlegt.

Svo er það starfskostnaðargreiðslan. Ég fékk það inn á sínum tíma að þingmenn mættu velja hvort þeir tækju þessa starfskostnaðargreiðslu. Ég hef aldrei tekið hana af því að ég veit ekki hvort þetta er kostnaður eða gjöld, laun eða kostnaður. Það er nefnilega hvort tveggja. Ég vil spyrja hv. þingmann: Notar hann starfskostnaðargreiðslu Alþingis?