136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að framlag upp á 11,5% er hærra en framlag upp á 8%, ég held að við deilum ekki um það. En ég held því fram að ekki eigi að gilda sérstök sérréttindi um ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara eins og var í lögunum frá 2003 og reyndar eldri lögum og að mikilvægt sé að samræma þetta því kerfi sem er hjá starfsmönnum ríkisins og það á væntanlega líka við um starfsmenn sveitarfélaga. Þessi munur hefur oft verið settur í samhengi við launakjör, mismunandi launakjör á opinbera markaðnum og almenna markaðnum. Fjallað hefur verið um að eðlilegt sé að launakjör opinberra starfsmanna séu eitthvað lægri en á almenna markaðnum, m.a. vegna þess að ýmsir þættir eins og lífeyrisréttindin vega inn í mat á heildarkjörum og það er eðlilegt að það sé gert. Ég veit að tryggingastærðfræðingum verður ekki skotaskuld úr því að reikna það út hvers virði þessi lífeyrisréttindi eru, ekki þarf að breyta lögum til þess.

Nú eru að vísu þær aðstæður í samfélaginu, vonandi bara tímabundið, að launakjör hafa verið á niðurleið og kannski ekki síst á almenna markaðnum, kaupmáttur, þannig að ekki er sjálfgefið að þessi rök eigi við í augnablikinu. En eins og ég sagði áðan er tilefni til þess, og ég útiloka alls ekki að eðlilegt sé að fara í það, að ræða hvort við steypum lífeyriskerfi allra landsmanna í einn farveg þannig að fullkominn jöfnuður sé milli þeirra sem eru á almenna markaðnum og hinum opinbera. Það er auðvitað sjálfstætt mál og miklu meira mál. Hv. þingmaður veit að það yrði að gerast að mjög yfirveguðu ráði og hugsanlega í einhverjum skrefum og í samningum við þá aðila sem um málið fjalla.