136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Eins og félagi minn, hv. þingmaður í þingflokki sjálfstæðismanna, Pétur H. Blöndal, nefndi, er dálítið erfitt að átta sig á því hvert yfirstjórn þingsins og hæstv. forseti er að fara í skipulagi dagskrár funda hér. Ekki er hægt að sjá að til standi að ræða þetta tiltekna mál nánar hér í dag af þeirri dagskrá sem birt hefur verið en síðan kemur hér tilkynning um annað frá forseta. Mér finnst eðlilegt að ræða kosningalöggjöfina, hún felur í sér grundvallarfyrirkomulag lýðræðisskipunar okkar og það þarf að gera vel og vandlega, sérstaklega þegar stuttur tími er til kosninga. Við þurfum að geta átt eðlileg skoðanaskipti um þau mikilvægu mál. Það er mjög óheppilegt að gera það með einhverjum hléum og í einhverjum bútasaumi. Það verður engin samfella í þeirri umræðu fyrir þá sem taka þátt í henni og þá ekki heldur fyrir þá sem hafa áhuga á að (Forseti hringir.) fylgjast með umræðunni.