136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

dagskrá og fyrirkomulag þingfunda.

[12:15]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill aðeins taka fram varðandi fundinn klukkan 13:30 að hann er samkvæmt hefðbundinni dagskrá á miðvikudögum og við höfum reynt að halda þeirri hefð. Forseti kynnti sér það að til að lengja fund þyrftum við annaðhvort að bæta inn morgunfundi eða kvöldfundi og forseti hefur ákveðið að reyna að halda sig innan þeirra marka sem hafa verið sett í þingsköpum þar sem ekki þyrfti að veita afbrigði til að funda og þess vegna er fundur settur á klukkan tólf.

Við höfum einn og hálfan tíma til að ræða málin, ljúkum svo þeim hefðbundnu störfum sem eru frá klukkan hálftvö til klukkan fjögur þegar þingflokksfundir hefjast og í framhaldi hefur verið boðaður fundur, ef málinu lýkur ekki, klukkan sex í dag til átta sem er innan þeirra marka sem þingsköp gera ráð fyrir. Þetta ætti að liggja alveg ljóst fyrir.

Það hefur einnig verið sagt hér að ef málinu lýkur ekki fyrir klukkan átta verði haldið áfram með það á morgun. Það kann að vera óþægilegt að þetta skiptist á lengri tíma en við vitum aldrei hversu langan tíma mál tekur í þinginu sama hvenær það er sett á dagskrá. Óskað var eftir að þetta mál yrði á dagskrá í gær, það var beðist undan því og þess vegna kemur það inn með eðlilegum hætti í dag. Það hefði getað verið á dagskrá um hálfsexleytið í gær og fram eftir kvöldi ef vilji hafði verið fyrir því.