136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. Pétur Blöndal gerði hér gaumgæfilega grein fyrir sínum fyrirvara í gær og menn hafa eðlilegar ástæður fyrir því ef menn gera það ekki og eru fjarstaddir. Mér fannst þetta ósköp undarleg athugasemd en kannski ekkert óeðlilegt í ljósi þess hvaða þingmaður átti í hlut sem kom upp í pontu, (Gripið fram í: Háttvirtur.) hv. þingmaður, hvernig sá hv. þingmaður hugsar og nálgast málið. Ég skil hann hins vegar ekki öðruvísi en svo en að hann sé einfaldlega að krefjast frestunar á málinu, frestunar á afgreiðslunni. Ég set mig í sjálfu sér ekki upp á móti því ef menn ætla að fresta þessu máli. Mér finnst það hins vegar miður að málflutningurinn sé með þeim hætti að reynt sé að gera fyrirvara þingmanna, sem eru eðlilegir fyrirvarar og réttur þingmanna til mála, tortryggilega. Það er mjög sérkennileg hugsun.