136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er — og já, ég ætla ekki að bregða út af vana mínum — að mér finnst risið ekki hátt á hv. þingmanni og mér finnst hann ekki bera nægilega mikla virðingu fyrir samherjum sínum sem eru kollegar hans á þinginu þó að þeir séu í öðrum flokki. Ég tel að hv. þingmaður eigi að bera meiri virðingu fyrir afstöðu þeirra en hann lætur uppi og lætur í veðri vaka hér í ræðustól.

Það er alveg ljóst að hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér upp í gær og gerði ekki eingöngu grein fyrir fyrirvara sínum heldur líka fyrirvara annarra þingmanna. Það er alkunna og alþekkt að það er oftast nær einn þingmaður sem gerir grein fyrir (Gripið fram í.) fyrirvörum viðkomandi þingmanna. Hv. þingmaður verður þá bara að hlusta betur þegar hann er hér viðstaddur en ekki að gera eitthvað annað.