136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þeir sem fylgdust með umræðunni í gær vita að ég gerði grein fyrir fyrirvara mínum og fyrirvörum tveggja annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli hvað varðar forseta Íslands, (Gripið fram í.) þ.e. þann fyrirvara að ef ungur maður yrði forseti Íslands og hætti svo eftir eitt kjörtímabil þá sé hann í vondum málum af því að hann fengi hvergi vinnu sem fyrrverandi forseti, mjög ólíklega, og hann fengi engan lífeyri eða mjög lítinn lífeyri. Þetta er eitthvað sem ekki var rætt í nefndinni enda var mikill flýtir á vinnslunni. Þetta var sá fyrirvari sem við vildum hafa á málinu, við þrjú. Svo gerði ég hins vegar líka fyrirvara um það að ég mundi flytja breytingartillögu sem við ræðum hér og greiðum atkvæði um á eftir.