136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[12:26]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega óhjákvæmilegt í ljósi þessarar umræðu að forseti meti það hvort rétt sé að fresta atkvæðagreiðslunni um þetta mál. Alla vega virðist svo að hv. þm. Mörður Árnason hljóti að vera að óska eftir því að málið komi inn á milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að rannsaka það betur. Það var ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að hann teldi að málið væri ekki nægilega vel rannsakað. Þá er náttúrlega gott færi á því að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. og rannsaka það betur. Það er auðvitað fullkominn réttur þingmanna að krefjast þess og ég spyr því hæstv. forseta: Mátti ekki skilja orð hans svo að málið kæmi inn til nefndar á milli 2. og 3. umr.? Ég fer þá alla vega fram á það að málið verði tekið til umræðu aftur í nefndinni fyrst látið hefur verið að því liggja að það sé ekki nægilega vel rannsakað.