136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[12:42]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24 frá árinu 2000, með síðari breytingum.

Ásamt mér flytja þetta frumvarp hv. þingmenn, og formenn þingflokka Framsóknarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, Jón Bjarnason, Siv Friðleifsdóttir og Grétar Mar Jónsson.

Virðulegi forseti. Þessi vetur verður okkur sem hér erum ógleymanlegur, ég held ég geti fullyrt það. Ekki aðeins stóðum við frammi fyrir miklu hruni fjármálakerfisins — sem ekki sér fyrir endann á, sem enn er verið að takast á við, og verður áfram meginviðfangsefni íslenskra stjórnmála næstu missirin — heldur er líka óhætt að fullyrða að í vetur hafi orðið mikil lýðræðisvakning í íslensku samfélagi og vaxandi krafa komið fram um að almenningur fái til að mynda í auknum mæli að ákvarða hvernig framboðslistar líta út og jafnvel hverjir nái kjöri til Alþingis.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir lýtur fyrst og fremst að því að kjósendur geti í kjörklefanum ráðið meiru en nú er um það hverjir setjast á þing. Ég tel það vera hluta af þeirri uppstokkun sem eðlileg er í framhaldi af því sem hefur verið að gerast í vetur.

Staðreyndin er einfaldlega sú að hvarvetna í kringum okkur hefur þróunin verið í þá átt að kjósendur eða almenningur hafi meira val um það hvernig listum til Alþingis er skipað. Reyndar er það orðið svo meðal lýðræðisríkja í Evrópu að Ísland, auk Noregs, er að verða aftast á merinni hvað þetta varðar, ásamt tveimur Miðjarðarhafsríkjum, þ.e. Portúgal og Spáni. Einnig er ástæða til að nefna Ísrael í þessu samhengi.

Norðurlöndin hafa gengið langt í slíku persónukjöri, Finnar reyndar lengst en þar ráða kjósendur alfarið vali manna. Danir og Svíar koma þar rétt á eftir en við ásamt Norðmönnum rekum lestina í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er lagt til að kosningalögum verði breytt þannig að færi gefist á persónukjöri í kosningum til Alþingis. Forustumenn stjórnarflokkanna báðu Þorkel Helgason stærðfræðing að stýra vinnu við undirbúning breytinga á kosningalögum fyrir komandi kosningar til Alþingis vorið 2009. Í vinnuhópnum voru auk hans Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Eiríkur Tómasson prófessor og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. Frumvarpið er byggt á vinnu þessa hóps.

Með persónukjöri er átt við að kjósendur hafi meiri eða minni áhrif á val á frambjóðendum í kosningum, þ.e. á kjördegi í kjörklefanum eða við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ekki einungis í prófkjörum. Margsinnis hefur verið fjallað um þann möguleika að taka upp persónukjör hér á landi, m.a. í tengslum við endurskoðun á kjördæmaskipan og í umræðum á Alþingi í tengslum við breytingar á stjórnarskipunarlögum og kosningalögum án þess að lagðar hafi verið til lagabreytingar hliðstæðar þeim sem hér eru lagðar fram.

Fyrir liggur að í flestum þingræðisríkjum sem viðhafa listakosningar hefur persónukjör í auknum mæli verið tekið upp eins og nánar er gerð grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til þær meginbreytingar að þeir sem standa að framboði í kjördæmum eigi kost á því að bjóða fram óraðaða lista í kosningum til Alþingis, kjósi þeir svo, en að gildandi ákvæði laga um kosningar til Alþingis verði að öðru leyti óbreytt, þ.e. að bjóða fram lista með ákveðinni röð frambjóðenda eins og nú er. Kjósendur megi eftir sem áður raða og strika út af röðuðum listum jafnframt því sem útreikningar á atkvæðum frambjóðenda verði eins og verið hefur. Það nýmæli sem felst í frumvarpi þessu er því fyrst og fremst valið á milli hins hefðbundna fyrirkomulags um raðaða lista annars vegar og óraðaða lista hins vegar. Breytingar þær sem frumvarpið kveður á um snerta einkum ákvæði um óraðaða lista. Reynt er að láta öll ákvæði um raðaða lista halda sér frá gildandi kosningalögum eftir því sem kostur er.

Rétt þykir að gera nokkra grein fyrir því hvernig breytingar á kosningalöggjöfinni hafa þróast frá upphafi 20. aldar að því er varðar möguleika kjósandans á að hafa bein áhrif á uppstillingu á lista með atkvæði sínu. Með lögum nr. 19/1913, um breytingu á lögum nr. 39/1903, um leynilegar kosningar og hlutfallskosningar til bæjarstjórna í kaupstöðum, var í fyrsta skipti kveðið á um útstrikanir og að kjósandi gæti breytt númeraröð frambjóðenda á kjörseðli. Sama fyrirkomulag var tekið upp í lög nr. 28/1915 varðandi landskjör, sem fór svo fram árið 1916. Þá voru sex þingmenn kosnir með hlutfallskosningu og jafnmargir til vara. Heimastjórnarflokkurinn fékk þrjá menn kjörna. Vegna breytinga sem kjósendur gerðu á lista þeirra færðist Guðmundur Björnsson úr 2. sæti í 3. sæti en Guðjón Guðlaugsson færðist úr 3. sæti í 2. sæti. Breytingar urðu líka á röð varamanna og Bríet Bjarnhéðinsdóttir færðist úr 4. sæti í 5. sætið. Hannes Hafstein sem var efstur á lista heimastjórnarmanna sótti ekki þingfundi frá 1918 en fyrsti varamaður, Sigurjón Friðjónsson, kom í hans stað. Þetta er fyrra dæmið um að útstrikanir hafi breytt röð og í raun fellt frambjóðanda til þings. Hefði röðin verið óbreytt frá uppstillingu hefði Bríet orðið fyrst kvenna til að setjast á þing. Síðara dæmið er frá 1946 þegar útstrikanir sem gerðar voru á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík höfðu þau áhrif að Björn Ólafsson sem var í 5. sæti færðist niður í 6. sæti en Bjarni Benediktsson færðist úr 6. sæti upp í 5. sæti. Talið er að Björn hafi verið strikaður út á 1.000–1.500 kjörseðlum, en alls fékk Sjálfstæðisflokkurinn 11.580 atkvæði. Bjarni varð uppbótarþingmaður, en Björn náði ekki kjöri.

Á árabilinu 1959–1987 voru ákvæði kosningalaga slík að möguleiki kjósenda til að hafa áhrif á röðun lista var lítill. Í alþingiskosningunum 2007 voru komnar til framkvæmda breytingar samkvæmt lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, sem höfðu í för með sér að áhrif af útstrikunum og öðrum breytingum á röð frambjóðenda jukust. Í tveimur kjördæmum færðist sinn frambjóðandinn hvor niður um eitt sæti vegna slíkra breytinga, en þeir hlutu þó báðir kosningu til Alþingis.

Til að auðvelda samanburð er nauðsynlegt að gera grein fyrir kosningafyrirkomulagi hvað varðar raðaða og óraðaða lista í öðrum lýðræðisríkjum, svo og um persónukjör að öðru leyti. Með persónukjöri er í þessu samhengi átt við að kjósendur eigi þess kost að velja á milli frambjóðenda af sama lista. Meirihlutakosning í einmenningskjördæmum er yfirleitt ekki talin persónukjör, þar sem kjósendur fá ekki að velja milli einstakra frambjóðenda nema með því að flytja atkvæði sitt alfarið yfir á annan flokk.

Fá ef nokkur lönd hafa gengið jafnlangt í þessu og Finnar en kosningakerfið í Finnlandi er dæmi um listakosningu þar sem lögð er áhersla á persónuval.

Á finnska þinginu sitja 200 fulltrúar sem kosnir eru hlutfallskosningu í 14 fjölmenningskjördæmum og einu einmenningskjördæmi. Stjórnmálaflokkar sem og kjördæmasamtök kjósenda geta tilnefnt frambjóðendur. Hámarksfjöldi frambjóðanda hvers flokks og kosningabandalags er 14 frambjóðendur eða jafnmargir og þingsæti kjördæmisins eru. Kjósendur velja einn frambjóðanda af lista flokks sem jafnframt gildir sem flokksatkvæði við talningu.

Úthlutun þingsæta milli frambjóðenda hvers flokks eða kosningabandalags í hverju kjördæmi byggist á persónulegum atkvæðum þeirra. Frambjóðendum er raðað eftir því hversu mörg persónuleg atkvæði þeir hafa fengið.

Sú staðreynd að kjósendur velja einstaka frambjóðendur frekar en flokkslista þýðir að þeir geta látið í ljós óánægju sína með stefnu eða forustu flokksins í kosningum með því að velja frambjóðendur sem tjá slíka óánægju. Það þýðir að enginn frambjóðenda flokks getur verið fyllilega öruggur um sitt sæti og í vissum mæli stuðlar það að samkeppni á milli frambjóðenda sama flokks í kosningum samhliða hefðbundinni samkeppni á milli flokka.

Í Svíþjóð fór fram talsverð umræða um að auka möguleikana á persónukjöri á tíunda áratugnum. Þessi umræða leiddi til þess að kosningakerfinu í þingkosningum var breytt á árinu 1998. Markmið Svía var að auka áhrif kjósenda á hverjir skyldu vera fulltrúar þeirra og styrkja tengslin á milli kjósenda og þingmanna. Höfð var hliðsjón af reynslu Dana við breytingarnar.

Á kjörseðlum í Svíþjóð eru frambjóðendur skráðir í röð en einnig er á kjörseðlinum reitur við nafn hvers frambjóðanda sem kjósendur geta merkt kross við. Einungis má merkja kross við nafn eins frambjóðanda og aðrar breytingar á listanum eru ekki leyfðar. Með því að merkja við nafn frambjóðanda gefa kjósendur til kynna stuðning sinn við hann.

Til að persónuatkvæði greidd tilteknum frambjóðanda geti haft áhrif á úthlutun þingsæta þurfa þau að nema að minnsta kosti 8% af atkvæðum flokksins í viðkomandi kjördæmi. Þingsætum er fyrst úthlutað til þeirra frambjóðenda sem komust yfir þessi mörk og er farið eftir tölu persónuatkvæða. Þeim þingsætum sem eftir eru er úthlutað eftir röð frambjóðenda á listanum sjálfum.

Danskir kjósendur velja sér lista með krossi eins og hér. En að auki geta þeir krossað við einn frambjóðanda á þeim lista sem þeir hafa kosið. Nefnist það að greiða persónulegt atkvæði. Þeir geta líka sleppt því og kallast atkvæðið þá flokksatkvæði. Áhrif þessara krossa kjósandans eru afar mismunandi allt eftir því hvaða framboðsleið listinn hefur valið.

Ég hef hér í nokkrum orðum, virðulegi forseti, hlaupið á meginatriðum frumvarpsins og aðeins farið yfir sögulegan aðdraganda þessa máls. En eins og ég hef rakið er hér verið að leggja til að auk þess fyrirkomulags sem nú er, að flokkar sem bjóða fram lista geti sett fram raðaða lista, sé boðið upp á það að flokkar geti einnig sett fram óraðaðan lista. Til þess að svo geti orðið þarf að tilkynna sérstaklega ef um óraðaða lista er að ræða.

Ég tel mikilvægt að vekja athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að í nefnd verði þriðja leiðin skoðuð, sem er þá þannig að flokkar setji fram leiðbeinandi röðun á listum sem kjósendur hafa þá meiri möguleika á að breyta.

Það er mikilvægt að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir sem standa að framboðum í hverju kjördæmi þurfi að velja sérstaklega á milli leiða. Frumvarpið, ef að lögum verður, skikkar flokka ekki til að hafa sama fyrirkomulag á öllum listum sínum. Það er svo allt annað mál hvort flokkar taki ákvörðun um að leggja eina línu eða hvernig þeir vilja haga framboðsmálum sínum. En samkvæmt þeirri hugmynd sem hér er lagt upp með er gert ráð fyrir því að þeir sem bjóða fram lista í hverju kjördæmi þurfi að taka sérstaka ákvörðun um það hvort þeir ætli að hafa raðaða eða óraðaða lista, enda kunna aðstæður að vera mismunandi í einstökum kjördæmum.

Virðulegi forseti. Ég vil fara yfir meginatriðin í einstökum greinum frumvarpsins. Greinar frumvarpsins eru níu og lagt er upp með það sem ég hef hér farið yfir. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu við 32. gr. laganna. Þar er bætt við því ákvæði að gefa þurfi yfirlýsingu til kjörstjórnar um það hvort listinn skuli vera raðaður eða óraðaður. Í öðru lagi er um það að ræða hvernig skuli fara með óraðaða lista, þ.e. að hlutast til um byrjun upptalningar o.s.frv. Í þriðja lagi eru ákvæði um það hvernig kjörseðillinn skuli líta út og gerður er skilvirkur munur á því hvort listinn sé raðaður eða óraðaður. Þá er farið yfir athöfn kjósandans og síðan er uppgjör á atkvæðum frambjóðenda en allt óbreytt varðandi óraðaða lista að sjálfsögðu. En raðaðir listar eru gerðir upp eins og í prófkjörum. Talan 1 merkir atkvæði í fyrsta sæti eða neðar, talan 2 atkvæði í öðru sæti eða neðar o.s.frv.

Virðulegi forseti. Í umræðu um möguleikana á að taka upp persónukjör í þessum kosningum hafa komið fram ýmis sjónarmið, m.a. þau að of skammt sé til kosninga til þess að taka upp persónukjör eða þá, eins og það hefur einnig verið orðað, að undirbúningur að kosningum sé þegar hafinn og því sé ekki tækifæri til þess að breyta leikreglum.

Um þetta má segja, virðulegi forseti, að ekkert er því til fyrirstöðu að flokkar haldi prófkjör, velji inn á lista og nýti niðurstöðu þeirra prófkjöra hvort sem er til þess að raða upp á lista eða stilla upp sínum óröðuðu listum. Ekkert í þessu ætti að gera það að verkum að sá undirbúningur sem flokkarnir hafa þegar farið í nýtist ekki. Það er kannski frekar spurning um það hvort flokkarnir séu tilbúnir að ganga þessa leið nú og taka þessa ákvörðun sem felur fyrst og fremst í sér að gefa kjósendum meira vægi til að ákveða hverjir nái kjöri til Alþingis á kjördeginum sjálfum. Málið snýst í reynd um það að gefa kjósendum aukið vægi á kjördag.

Grundvallaratriðið er að auka áhrif almennings í landinu við val á þeim þingmönnum sem setjast á þing. Það er grundvallaratriði í þessari hugsun og mjög eðlilegt að þetta sé lagt fram hér enda hefur sú ríkisstjórn sem nú situr sett fram þau meginsjónarmið að þetta sé ríkisstjórn sem snúist um heimilin, fyrirtækin, atvinnuna í landinu og aukið lýðræði, og þetta er framlag til þess

Frumvarpið er flutt af formönnum allra þingflokka nema eins. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að þótt hér sé gert ráð fyrir tveimur valkostum, þ.e. óröðuðum listum eða röðuðum, tel ég eðlilegt að nefnd skoði hvort ástæða sé til þess að leggja það upp þannig að uppröðun flokkanna sé leiðbeinandi en kjósendur hafi síðan tiltekið vægi til að breyta þeim sem þá þýðir það að ef kjósandi greiðir flokki atkvæði en fiktar ekki í röðinni þá gildir sú röð sem á listanum er. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði skoðað í þingnefndinni, möguleikinn á að setja þessa leið inn.

Það sem hér er lagt til er vissulega mikil breyting frá því sem verið hefur. Reyna mun á það í umræðum hér á þinginu hvernig flokkar eru stemmdir gagnvart þessum hugmyndum.

Það kom fram í upphafi þessa fundar að fulltrúar tiltekins þingflokks höfðu áhyggjur af því að þeir kynnu ekki að koma sjónarmiðum sínum að strax í upphafi. Ég ætla að gera það sem í mínu valdi stendur til að tryggja að þau sjónarmið komist á framfæri sem fyrst og í samfellu við upphaf þessarar umræðu. Ég ætla því, virðulegi forseti, að stytta framsöguræðuna sem því nemur svo að sjónarmið þeirra sem hafa áhyggjur af því að fara þessa leið, eða eru henni andvígir, komist sem fyrst til skila.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpið gangi til allsherjarnefndar að lokinni þessari umræðu.